Áhugasamir nemendur á íslenskunámskeiðum

„Ég kenni tveimur hópum og hitti hvorn hóp tvisvar í viku, þrjár klukkustundir í senn,“ segir Ívar Örn Reynisson kennari, sem kennir grunnnámskeið í íslensku fyrir útlendinga í staðnámi í Borgarnesi. Ívar segir að kennslustundirnar séu sendar út á netinu fyrir þá sem ekki komast á staðinn en almennt kjósi nemendur að vera í staðnámi frekar en fjarnámi, sé þess kostur. Til þess að það sé unnt sé öllum sóttvarnareglum fylgt í hvívetna með fjarlægðarmörkum og grímunotkun, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd sem tekin var í kennslustund hjá Ívari Erni.

Ívar segir að þátttakendur á námskeiðunum hafi búið misjafnlega lengi á Íslandi og þeir komi víða að úr fjórðungnum; auk Borgarfjarðar sæki fólk námskeiðin frá Akranesi, úr Grundarfirði og Melasveit. „Í heildina er 21 þátttakandi á þessum tveimur námskeiðum,“ segir Ívar.

„Fyrst og fremst er á þessu grunnnámskeiði í íslensku lögð áhersla á ýmsa grunnþætti í tungumálinu. Fólk er þjálfað í einföldum samtölum, að segja frá sér, ég fer aðeins í tölur og inn á milli skýt ég nokkrum atriðum í málfræði. Almennt finnst mér fólk afar áhugasamt, andinn er góður í báðum þessum hópum og mér finnst auðvelt að fá fólk til þess að taka þátt og það hefur nú þegar lýst áhuga á að fara á framhaldsnámskeið,“ segir Ívar Örn.

Þátttakendur á námskeiðunum koma frá fjölmörgum þjóðum; Venesúela, Gvatemala, Tælandi, Þýskalandi, Sviss, Póllandi, Skotlandi, Norður-Írlandi og Spáni. „Við búum svo vel að þeir sem ekki tala ensku hafa tengiliði á námskeiðunum sem tala þeirra tungumál auk ensku. Þátttakendur miðla þannig upplýsingum til þeirra sem ekki skilja ensku, sem auk íslenskunnar auðvitað, er það tungumál sem ég tala á námskeiðinu.“

Þessi grunnnámskeið í íslensku fyrir útlendinga eru 40 klukkustundir og standa í hálfa sjöundu viku. Þau hófust í september og þeim lýkur um mánaðamótin nóvember-desember.

„Það sem mér finnst vefjast hvað mest fyrir fólki með íslenskuna er sem ég vil kalla óregluleiki tungumálsins. Ég nefni til dæmis ólíka merkingu orðsins „galli“. Með því orði er annars vegar vísað til annmarka eða ágalla en hins vegar til flíkur. En það sem er þó öllu erfiðara fyrir fólk er þegar það hvorki sér í hvaða kyni orðið er né í hvaða falli. Þegar slík dæmi koma upp stappa ég stálinu í fólk og bendi á að margir landar mínir séu ekki sterkir á svellinu þegar kemur að íslenskri málfræði. Sem betur fer fallast fólki ekki hendur, heldur miklu frekar hefur það lúmskt gaman að þessu og ég segi því að íslenskan sé um margt skrítið tungumál og ólíkt þeirra móðurmálum,“ segir Ívar Örn, sem er sagnfræðingur og kennari að mennt. Hann segist ekki áður hafa kennt útlendingum íslensku og þetta sé því ný og skemmtileg reynsla. „Ég kenndi íslensku í grunnskóla fyrir margt löngu en í mörg ár kenndi ég sögu og félagsgreinar í Menntaskóla Borgarfjarðar,“ segir Ívar Örn Reynisson.

Efst á síðu