Siðareglur FNS

Inngangur

Félag náms- og starfsráðgjafa er fagfélag náms- og starfsráðgjafa á Íslandi.

Siðareglum Félags náms- og starfsráðgjafa er ætlað að efla fagvitund náms- og starfsráðgjafa og stuðla að fagmennsku í starfi með hagsmuni ráðþega í fyrirrúmi. Tilgangur þeirra er jafnframt að vera náms- og starfsráðgjöfum siðferðilegt leiðarljós í starfi, upplýsa almenning um hugsjónir og faglegar skyldur náms- og starfsráðgjafa, og vera mælikvarði á vönduð vinnubrögð innan fagstéttarinnar.

Markmið náms- og starfsráðgjafar er að auðvelda einstaklingum að átta sig á eigin óskum og vilja og efla færni þeirra til að taka farsælar ákvarðanir um nám og starf. Náms- og starfsráðgjafar inna af hendi mikilvæga þjónustu fyrir einstaklinga og samfélag. Því skiptir miklu að náms- og starfsráðgjafar gegni starfi sínu af fagmennsku og siðferðilegri ábyrgð. Náms- og starfsráðgjafar skulu forðast að hafast nokkuð það að sem rýrt gæti það traust sem ríkja ber milli stéttarinnar og almennings. Náms- og starfsráðgjafar skulu líta á það sem mikilvæga skyldu að varðveita og styrkja það trúnaðarsamband sem ríkir milli þeirra og ráðþega. Þau siðferðisgildi sem liggja siðareglum þessum til grundvallar eru í aðalatriðum af þrennum toga:

Manngildi og virðing. Náms- og starfsráðgjafi ber ávallt fyllstu virðingu fyrir ráðþega. Hann fer ekki í manngreinarálit en gætir þess jafnframt að virða sérstöðu hvers ráðþega.

Sjálfræði. Hlutverk náms- og starfsráðgjafa er að efla hæfileika ráðþega til að taka sjálfstæðar ákvarðanir og bera ábyrgð á eigin ákvörðunum og þroska. Náms- og starfsráðgjafi ráðskast aldrei með ráðþega eða starfar í anda forræðishyggju.

Heill og velferð. Náms- og starfsráðgjafi hefur ávallt heill og velferð ráðþega að leiðarljósi. Hann ráðleggur í samræmi við faglega þekkingu sína og bestu vitund. Í störfum sínum forðast hann allt það er gæti valdið ráðþega skaða eða óþörfum erfiðleikum.

Kafli I. Ráðgjafarsamband

1. gr. Náms- og starfsráðgjafi sýnir virðingu og nærgætni þegar hann aðstoðar ráðþega við náms- og starfsval. Hann virðir sjálfræði hvers einstaklings og leitast við að leiða fram þau lífsgildi og óskir sem ráðþegi hefur sjálfur og hjálpa honum þannig að gera sér grein fyrir áhugasviði sínu eða köllun. Náms- og starfsráðgjafi ráðleggur á grundvelli faglegrar þekkingar sinnar og samvisku. Hann tekur ávallt ábyrgð á starfsaðferðum sínum og ákvörðunum. Hann forðast að stjórna vali ráðþega eða hafa óeðlileg áhrif á ákvarðanir, fyrirætlanir, gildismat, lífsstíl eða lífsviðhorf ráðþega.

2. gr. Náms- og starfsráðgjafi skal ekki mismuna ráðþegum til dæmis vegna persónulegra tengsla, félagslegra aðstæðna, kyns, kynþáttar, kynhneigðar, trúar, fötlunar, eða annarra sambærilegra þátta.

3. gr. Náms- og starfsráðgjafi skal ekki nýta tengsl við þá sem til hans leita sjálfum sér til framdráttar. Hann skal til dæmis gæta þess að ljúka ráðgjafarsambandi þegar fyrir liggur að ráðþegi þarfnast ekki frekari aðstoðar. Náms- og

starfsráðgjafi forðast að stofna til hagsmunatengsla sem rekist geta á við hag ráðþega. Telji náms- og starfsráðgjafi möguleika á hagsmunaárekstri upplýsir hann ráðþega um það.

4. gr. Náms- og starfsráðgjafi kemur fram af heiðarleika og tillitssemi gagnvart ráðþegum sínum og leitast við að skapa gagnkvæmt traust. Hann gætir trúnaðar í samskiptum við ráðþega og þagmælsku um viðkvæmar persónuupplýsingar. Hann sýnir einkalífi ráðþega virðingu og gætir ávallt fyllstu vandvirkni og varúðar í skráningu og meðhöndlun persónulegra gagna á rafrænu og órafrænu formi.

5. gr Náms- og starfsráðgjafi upplýsir ráðþega um eðli, tilgang og niðurstöður þeirra prófana og mælitækja sem hann notar í þjónustu við ráðþega, og beitir þeim ekki nema að fengnu upplýstu samþykki hans.

6. gr. Í undantekningartilfellum, svo sem er lög kveða svo á um eða ógn steðjar að ráðþega eða þriðja aðila, getur reynst nauðsynlegt að rjúfa trúnað við ráðþega. Skal þá náms- og starfsráðgjafi jafnan gera ráðþega grein fyrir að trúnaður verði rofinn.

KAFLI II. Fagleg ábyrgð

7. gr. Náms- og starfsráðgjafi þekkir viðeigandi lög og reglur varðandi réttindi ráðþega sinna. Náms- og starfsráðgjafi getur veitt ráðþega ráðleggingar og stuðning í samskiptum við yfirvöld og stofnanir. Náms- og starfsráðgjafi skal þó ávallt hvetja ráðþega til að standa fyrir máli sínu af eigin frumkvæði og ábyrgð. Hann skal forðast að taka á sínar herðar ábyrgð sem með réttu er ráðþegans.

8. gr. Náms- og starfsráðgjafi er meðvitaður um gildi sín og viðhorf. Hann gætir jafnréttis og hlutleysis í starfi sínu og forðast fordóma af öllu tagi. Náms- og starfsráðgjafi er ennfremur meðvitaður um viðkvæma stöðu ráðþega og gætir þess að misnota hana á engan hátt. Hann forðast fagleg tengsl við einstaklinga sem hann er tengdur eða venslaður persónulega á annan máta.

9. gr. Náms- og starfsráðgjafi ber ábyrgð á að viðhalda fagþekkingu sinni og færni. Hann leitast við að tileinka sér nýjungar á sviði náms- og starfsráðgjafar og bæta þá faglegu þjónustu sem hann veitir. Náms- og starfsráðgjafi leitar sér handleiðslu til að efla fagvitund sína, færni og öryggi í starfi. Hann tekur þátt í rannsóknum er stuðlað geta að framförum í faggreininni eftir því sem þekking, hæfni og aðstæður gera honum fært.

10. gr. Náms- og starfsráðgjafi starfar innan marka menntunar sinnar og reynslu og vísar ráðþega til annarra sérfræðinga þar sem starfssviði hans sleppir.

11. gr. Náms- og starfsráðgjafi gerir ekkert það sem rýrt getur álit almennings á náms- og starfsráðgjöf og vinnur að því að skapa greininni traust og virðingu. Hann virðir hæfni, skyldur og ábyrgð annarra náms- og starfsráðgjafa og gerir ekkert í starfi sínu sem rýrir orðstír þeirra.

12. gr. Náms- og starfsráðgjafi skal aldrei vinna undir áhrifum áfengis eða annarra efna sem slæva dómgreind hans og athygli.

13. gr. Náms- og starfsráðgjafi stofnar ekki til kynferðislegs sambands við ráðþega á meðan á faglegu sambandi þeirra stendur. Náms- og starfsráðgjafi áreitir ráðþega eða samstarfsfólk aldrei kynferðislega.

14. gr. Náms- og starfsráðgjafi miðlar starfssystkinum af þekkingu sinni og reynslu. Hann upplýsir almenning um markmið fagsins og almenn málefni ráðþega. Hann vandar alla miðlun upplýsinga jafn til starfssystkina, ráðþega, almennings og opinberra stofnana.

15. gr. Náms- og starfsráðgjafi vinnur að góðum og traustum faglegum samskiptum. Hann starfar í góðri samvinnu og tengslum við stofnanir og fagaðila í öðrum fagfélögum sem vinna í þágu og til heilla fyrir einstaklinga og fjölskyldur.

KAFLI III. Siðanefnd og brot á siðareglum

16. gr. Náms- og starfsráðgjafi skal starfa í anda siðareglna þessara og taka ábyrgð á faglegum gerðum sínum. Náms- og starfsráðgjafar vinna í sameiningu að því að endurskoða siðareglur þessar.

17. gr. Siðanefnd skipa fjórir félagsmenn úr Félagi náms- og starfsráðgjafa, þar af einn úr stjórn félagsins. Hún hefur frumkvæði að endurskoðun siðareglna og tekur við ábendingum er varða störf fagfólks í greininni. Henni er ætlað að vera leiðbeinandi, ráðgefandi og fyrirbyggjandi að því er varðar siðferðileg álitamál innan fagstéttar náms- og starfsráðgjafa. Áður en siðanefnd tekur til starfa skal hún setja sér starfsreglur.

18. gr. Starfi náms- og starfsráðgjafi ekki í anda siðareglna þessara, að dómi starfssystkina hans eða ráðþega, er hægt að vísa máli hans til siðanefndar FNS innan árs frá því meint brot átti sér stað. Siðanefnd fjallar um þau erindi sem til hennar berast og telji hún að um brot á siðareglum sé að ræða skal hún kveða skýrt á um það í rökstuddum úrskurði hvort brotið er ámælisvert, alvarlegt eða mjög alvarlegt. Telji siðanefnd að um ámælisvert brot sé að ræða skal hún veita viðkomandi náms- og starfsráðgjafa áminningu. Álíti siðanefnd að brotið hafi verið alvarlega eða mjög alvarlega gegn siðareglum þessum vísar hún málinu beint til stjórnar félagsins, ásamt áliti sínu. Stjórn félagsins ákveður í framhaldi af því hvort ástæða sé til að vísa viðkomandi úr félaginu. Í öllum tilvikum skulu málsaðilum kynntar niðurstöður siðanefndar

Efst á síðu