Erlend samstarfsverkefni

Símenntun á Vesturlandi hefur tekið þátt í fjölmörgun erlendum samstarfsverkefnum. Öll eiga þessi verkefni það sameiginlegt að stuðla að þróun náms í fullorðinsfræðslu, eflingu mannauðs og samstarfs við fyrirtæki og stofnanir.

Þau verkefni sem Símenntun vinnur nú að eru:

Motive

Motive er verkefni sem miðar að því að greina þarfir leiðbeinanda í fullorðinsfræðslu í miðlun á rafrænni fræðslu. Þar er unnið að því að útbúa handbók og leiðbeiningar í fjarkennslu og stutt myndbönd til stuðnings.
Verkefnið er styrkt af Erasmus + áætlun Evrópusambandsins og lýkur í mars 2023.
Símenntun leiðir verkefnið í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir frá Búlgaríu, Grikklandi, Kýpur og Spáni. Upplýsingar um verkefnið má finna hér.

Fyrri verkefni sem Símenntun hefur tekið þátt í:

SINTRA

SINTRA verkefnið miðaði að því að þróa sérsniðnar og nýstárlegar þjálfunaraðferðir og verkfæri sem eiga að styðja fyrirtæki til að virkja innri nýsköpun til að auka sjálfbærni, hvort sem er í viðskiptalífinu eða í opinbera geiranum.
Verkefnið var 24 mánaða Erasmus+ verkefni (KA2: Strategic Partnerships for adult education) sem ætlað er að þróa samþættan stuðning sem sniðinn er að þörfum fyrirtækja og stofnana sem vilja auka færni starfsfólks og stjórnenda í innri nýsköpun. Allt í þeim tilgangi að auka sjálfbærni.

Advancing Migrant Women (AMW)

AMW verkefnið var unnið í samstarfi við Háskólann á Bifröst og fræðsluaðila í Englandi, Grikklandi og á Ítalíu. Verkefnið, sem var til þriggja ára, hófst í september 2017 og lauk í febrúar 2020. Markmiðið var að þróa hágæða efni til að þjálfa og styðja við konur af erlendum uppruna í nýju landi til þess að þær valdeflist, styrki starfsgetu sína og frumkvöðlahæfni með heildstæðri áætlun sem byggir á þjálfun og kennslu sem eykur sjálfstraust og getu. Í lokin á að verða til afurð sem eflir konur af erlendum uppruna tilþess að geta fullkomlega nýtt hæfileika sína og styrkleika.

Active citizenship

Active citicenship var tveggja ára verkefni og hófst undirbúningur þess í lok árs 2017. Samstarfsaðilar voru frá Finnlandi, Noregi og Litháen. Í verkefninu var leitast við að finna og þróa nýjar aðferðir við kennslu fullorðinna í virkri borgaravitund. Hjá Símenntunarmiðstöðinni var lögð áhersla á innflytjendur í þessu verkefni og fór grunnvinna fram með rannsóknum á borgaravitund innflytjenda. Verkefninu lauk 2019.

FEENICS

FEENICS verkefnið hafði það að markmiði að efla ungt fólk á aldrinum 20 – 29 ára með því að bjóða upp á þjálfun sem styður skapandi hæfni og virkni einstaklinga og undirbýr það fyrir atvinnulífið, hvort sem það hafi starfsreynslu eða ekki.

Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi leiddi verkefnið FEENICS (Furthering Youth Empowerment through Enhancing Intrapreneurial commitment and skills) sem við köllum á íslensku skapandi hæfni og virkni sem valdefling fyrir ungt fólk. Verkefnið tók tvö ár og samstarfsaðilar voru frá Búlgaríu, Eistlandi, Grikklandi, Króatíu og Portúgal.

Í verkefninu var lögð áhersla á að greina hvers konar hæfniþætti væri gott að vinna með í þjálfuninni, bæði út frá einstaklingunum sjálfum og atvinnulífinu. Einnig að þróa námsefni sem hægt er að nota í þjálfuninni og setja saman hóp af ungu fólki sem fær tækifæri til að prufa námsefnið og annað stuðningsefni. Einnig varð til veflægt samstarfs- og stuðningsnet þar sem leiðbeinendur ungmenna gátu sótt sér og deilt efni og þekkingu.

Almennt um framhalds- og fullorðinsfræðslu erlendis:

Norrænt tengslanet um nám fullorðinna (NVL)

Meginverkefni NVL er meðal annars að styðja við þróun og innleiðingu stefnumótunar um símenntun og færniþróun, stuðla að persónulegri þróun og lýðræðislegri þátttöku, styðja samspilið við áætlunina Nordplus Nám fullorðinna ásamt því að upplýsa skipulega og stefnumótandi um reynslu og niðurstöður norræns samstarfs og skapa samlegðaráhrif gagnvart alþjóðlegu, þar með talið evrópsku, samstarfi um fullorðinsfræðslu.

Samtök Evrópulanda um nám fullorðinna

EAEA hefur áhrif á stefnu Evrópusambandsins um óformlega fullorðinsfræðslu og símenntun og vinnur með stofnunum Evrópusambandsins, samtökum borgaralegra félagasamtaka innan Evrópusambandsins, öðrum alþjóðlegum og evrópskum hagsmunaaðilum og hér innanlands.

EPALE – vefgátt fullorðinsfræðslu í Evrópu

EPALE er vefgátt þar sem fagfólk í fullorðinsfræðslu getur bloggað, deilt fréttum og auglýsingum um viðburði og sótt efni í gagnabanka. Vefgáttin veitir aðgang að lokuðum, gagnvirkum vefsvæðum þar sem hægt er að láta álit sitt í ljós, taka þátt í umræðum og eiga frumkvæði að umræðu um ýmis viðfangsefni.

Efst á síðu