Reglugerð um framhaldsfræðslu

Símenntun á Vesturlandi starfar samkvæmt reglugerð um framhaldsfræðslu nr. 1163/2011 sem tekur til ýmissa þátta í framhaldsfræðslu, svo sem viðurkenningar fræðsluaðila, vottunar námskráa og raunfærnimats.

Framhaldsfræðsla nær yfir hverskonar nám, úrræði og ráðgjöf sem er ætlað að mæta þörfum einstaklinga með stutta formlega skólagöngu að baki og er ekki skipulagt á grundvelli laga um framhaldsskóla eða háskóla.

 

I. KAFLI

Gildissvið og viðurkenning fræðsluaðila.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til ýmissa þátta í framhaldsfræðslu, svo sem viðurkenningar fræðsluaðila, vottunar námskráa og raunfærnimats.

2. gr.

Inntak viðurkenningar o.fl.

Mennta- og menningarmálaráðherra, eða aðili sem hann felur það verkefni, viðurkennir fræðslu- aðila á grundvelli laga um framhaldsfræðslu og reglna settra samkvæmt þeim, enda miði starfið sem viðurkenningin nær til að því að uppfylla markmið 2. gr. laga um framhaldsfræðslu.

Viðurkenning á starfsemi fræðsluaðila felur í sér staðfestingu á að starfsemi hans uppfylli skilyrði laga um framhaldsfræðslu hvað varðar hlutverk og markmið, skipulag náms og kennslu, aðstöðu og rekstur.

Í viðurkenningu felst ekki skuldbinding um fjárframlög úr ríkissjóði til viðkomandi aðila og ekki heldur ábyrgð á skuldbindingum hans.

Viðurkenning er veitt skriflega og þar skal lýst þeim skilyrðum sem sett eru. Viðurkenning fræðsluaðila í framhaldsfræðslu er veitt til tiltekins tíma, að hámarki til þriggja ára í senn.

3. gr.

Umsókn.

Fræðsluaðili sækir um viðurkenningu til mennta- og menningarmálaráðuneytis, eða annars aðila sem ráðherra hefur falið það verkefni. Umsækjandi skal leggja fram eftirgreindar upplýsingar með umsókn um viðurkenningu:

 • lýsingu á aðstöðu, þ.e. húsnæði fræðsluaðila og búnaði, ásamt vottorðum frá yfirvöldum heilbrigðis- og brunamála og lýsingu á aðgengi fatlaðra,
 • lýsingu á starfsemi viðkomandi, þar sem gerð er grein fyrir stjórnun, helstu áherslum í starfi, námsframboði, námskrá og skipulagi náms,
 • greinargerð um kröfur til þeirra sem annast munu kennslu og ráðgjöf, menntun þeirra, hæfni og starfsreynslu,
 • staðfestingu á því hvernig fjárhagslegri ábyrgð sé háttað og hvernig fjárhagslegt rekstraröryggi starfseminnar sé tryggt,
 • lýsingu á sjálfsmati fræðsluaðila og tilhögun gæðamála.

4. gr

Skilyrði.

Skilyrði þess að fræðsluaðili geti hlotið viðurkenningu eru:

 • að sýnt sé fram á að til staðar sé rekstrarleg, fagleg og kennslufræðileg þekking sem gerir viðurkenningu stjórnvalda mögulega,
 • að starfsaðstaða sé fullnægjandi að mati ráðuneytisins,
 • að starfsemin uppfylli markmið og önnur skilyrði laga um framhaldsfræðslu og reglna settra samkvæmt þeim,
 • að kröfur um hæfni og reynslu þeirra sem annast kennslu og ráðgjöf séu fullnægjandi að mati ráðuneytis eða þess aðila sem veitir viðurkenninguna,
 • að fjárhagslegar forsendur séu fyrir starfseminni,
 • að fyrir liggi trygging fyrir því að nemendur geti lokið námi sínu. Heimilt er að krefjast bankatryggingar af fræðsluaðila til að fullnægja þessu skilyrði,
 • að innra gæðakerfi fræðsluaðila fullnægi skilyrðum IV. kafla laga um framhaldsfræðslu um mat og eftirlit með gæðum.

5. gr.

Veiting upplýsinga og úttektir.

Viðurkenndur fræðsluaðili skal senda mennta- og menningarmálaráðuneyti árlega skýrslu um starfsemina og veita því allar umbeðnar upplýsingar um rekstur og starfsemi sína þegar óskað er.

Fræðsluaðili sem hættir störfum skal afhenda ráðuneytinu upplýsingar um námsferil allra nemenda.

Ráðuneytinu er heimilt að höfðu samráði við stjórn viðkomandi fræðsluaðila að taka út starf- semi hans.

6. gr.

Afturköllun viðurkenningar.

Uppfylli viðurkenndur fræðsluaðili ekki lengur skilyrði laga nr. 27/2010 um framhaldsfræðslu eða reglugerðar þessarar getur ráðherra afturkallað viðurkenninguna.

Áður en til afturköllunar kemur skal stjórn fræðsluaðila send aðvörun þar sem lýst er þeim aðfinnslum og athugasemdum sem gerðar hafa verið við starfsemi hans. Heimilt er að veita fræðsluaðila allt að þrjá mánuði til að bregðast við athugasemdum og leggja fram áætlun um hvernig bætt verði úr ágöllum á starfseminni. Um málsmeðferð fer að öðru leyti samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

7. gr.

Fjárhagsmálefni.

Viðurkenndir fræðsluaðilar í framhaldsfræðslu eiga ekki kröfu til framlaga af almannafé. Njóti þeir framlaga á fjárlögum skal gerður samningur milli mennta- og menningarmálaráðherra og fræðsluaðila um greiðslu fjárframlaga, svo og annarra skilyrða sem framlagið er háð að mati samningsaðila.

II. KAFLI

Vottun námskráa.

8. gr.

Markmið vottunar.

Markmið með vottun námskráa er að tryggja gæði og gegnsæi námstilboða í framhaldsfræðslu með því að staðfesta að námið uppfylli almennar kröfur um skipulag, ásamt þeim sértæku kröfum sem gerðar eru með tilliti til inntaks náms og hæfni nemenda. Enn fremur að tryggja að beitt sé samræmdum viðmiðum við þróun og ritun námskráa.

9. gr.

Skilyrði vottunar.

Námskrá skal unnin í samræmi við gæðaviðmið, sbr. 10. gr. og miðast við nám sem krefst að lágmarki 40 klukkustunda vinnu námsmanns. Námskrá skal hafa að geyma:

 • lýsingu á tilgangi námsins, forsendum þess og hverjum námið er ætlað,
 • lýsingu á skipulagi námsins, umfangi þess og uppbyggingu miðað við þrepaskiptingu náms, sbr. 5. gr. laganna,
 • lýsingu á þekkingu, leikni og hæfni sem námsmaður á að búa yfir að loknu námi,
 • ákvæði um námsmat,
 • upplýsingar um stöðu námsmanna að loknu námi.

10. gr.

Gæði og ábyrgð.

 • Mennta- og menningarmálaráðherra setur gæðaviðmið um gerð og uppbyggingu námskráa í framhaldsfræðslu og vottar einstakar námskrár á grundvelli þeirra.
 • Ráðherra getur falið öðrum aðila ábyrgð á gerð og gæðum námskráa í framhaldsfræðslu sem teknar eru til

III. KAFLI

Raunfærnimat.

11. gr.

Markmið raunfærnimats.

Þeir sem hafa stutta formlega skólagöngu að baki eða hafa ekki lokið námi á framhalds- skólastigi skulu eiga þess kost að fá metna alhliða reynslu sem aflað hefur verið á ýmsum vettvangi. Þeim sem hyggjast stunda nám sem uppfyllir skilyrði laga um framhaldsfræðslu stendur til boða einstaklingsbundin náms- og starfsráðgjöf. Matið getur verið í þrennum tilgangi:

 • að gera fólki kleift að ljúka tilteknu námi á framhaldsskólastigi; matið miðast við hæfni- kröfur viðkomandi námskrár,
 • að auka starfsfærni á vinnumarkaði, matið miðast við skilgreindar þarfir ákveðinna starfa,
 • að vera viðkomandi hvatning til þess að hefja nám að nýju og/eða styrkja stöðu sína á vinnumarkaði.

12. gr.

Inntak mats.

Raunfærnimat er skipulegt ferli þar sem með formlegum hætti er lagt mat á alhliða þekkingu og færni einstaklings. Matið getur byggst á skólagöngu, starfsreynslu, starfsnámi, frístundanámi, framhaldsfræðslu, félagsstörfum og lífsreynslu viðkomandi.

Raunfærnimat er einkum ætlað fólki sem hefur verið á vinnumarkaði í a.m.k. þrjú ár og náð tuttugu og þriggja ára aldri að lágmarki. Viðkomandi skal hafa aflað sér þekkingar, leikni og hæfni á tilteknu sviði sem nýst getur í námi til lokaprófs eða til skilgreindra starfa á vinnumarkaði.

Sá sem sækir um raunfærnimat skal leggja fram nauðsynleg gögn sem styðja umsóknina, svo sem yfirlit yfir nám og störf.

Matsaðilar útfæra nánari viðmið fyrir hverja grein um sig.

13. gr.

Framkvæmd raunfærnimats.

Raunfærnimat fer fram á vegum viðurkenndra fræðsluaðila sem starfa á grundvelli laga um framhaldsfræðslu nr. 27/2010 eða laga um framhaldsskóla nr. 92/2008. Matsaðilar sem annast raunfærnimat skulu hafa aflað sér fullnægjandi þekkingar og þjálfunar í mati á raunfærni samkvæmt kröfum mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Viðurkenndir fræðsluaðilar sem annast raunfærnimat skulu koma á laggirnar sérstökum stýri- hópi sérfróðra aðila fyrir hverja námsgrein, námsleið, starfsgrein eða starfsgreinaflokk með þátttöku náms- og starfsráðgjafa, fagkennara og fagaðila úr atvinnulífinu. Hópurinn ber sameiginlega ábyrgð á að niðurstöður raunfærnimats séu réttmætar og gildi á vinnumarkaði og/eða í skólakerfi óháð staðsetningu.

Raunfærnimat felur í sér skipulagt ferli sem skiptist í eftirfarandi þætti:

Umgjörð.

 • undirbúningur: samráð og samstarf við helstu hagsmunaaðila greinarinnar sem raunfærni- matið fer fram í; varðandi viðmið, aðferðafræði, markhópinn og framkvæmd raunfærni- matsins,
 • upplýsingar og endurgjöf: væntanlegir þátttakendur fá upplýsingar um raunfærnimatsferlið og mögulegar niðurstöður úr því. Tryggt er að þátttakendur fái skýra endurgjöf á stöðu sína meðan á ferlinu stendur sem og viðeigandi ráðgjöf.

Framkvæmd.

 • skimun: Lagt er mat á stöðu umsækjanda miðað við kröfur sem gerðar eru og líkindi þess að hann eigi erindi í raunfærnimat,
 • skráning færni: Þátttakendur skrá raunfærni sína undir handleiðslu ráðgjafa í þar til gerða færnimöppu. Fagaðili/fagaðilar leiðbeina þátttakendum við sjálfsmat út frá settum við- miðum í faginu,
 • greining og staðfesting færni: Fagaðili/fagaðilar meta almenna og sértæka færni þátttakanda í samtali þar sem stuðst er við færnimöppu og sjálfsmatslista viðkomandi. Við raunfærnimat er gengið út frá viðmiðum starfsgreinar og byggt á fjölbreyttum aðferðum. Matsaðferðir miðast við þarfir þátttakanda,
 • mat og viðurkenning á raunfærni: Metin raunfærni þátttakanda er skjalfest og vottuð af fræðsluaðilum.

14. gr.

Niðurstöður raunfærnimats.

Umsækjandi fær í hendur skriflega niðurstöðu raunfærnimats og ráðgjöf um næstu skref. Niður- stöður raunfærnimats skulu vera jafngildar á milli fræðsluaðila á framhaldsskóla- og framhalds- fræðslustigi.

Fræðsluaðilar skulu skila niðurstöðum raunfærnimats til mennta- og menningarmála- ráðuneytisins eða aðila sem það felur umsýslu verkefnisins. Niðurstöður raunfærnimats eru skráðar í gagnagrunn á vegum stjórnvalda. Með þeirri skráningu er óformlegt nám og starfsreynsla metið til jafns við formlegt nám. Fræðsluaðili sem annast mat á raunfærni skal geta rökstutt niðurstöðu sína með vísan til varðveittra gagna ef eftir er leitað.

15. gr.

Endurmat.

Þátttakandi í raunfærnimati á rétt á að fá niðurstöðu þess endurmetna hjá þeim fræðsluaðila sem ábyrgð ber á matinu og þarf að styðja slíka beiðni ítarlegum viðbótargögnum. Ábyrgðaraðili lætur fara fram endurskoðun á fyrri niðurstöðu raunfærnimats og tilkynnir þátttakanda um niðurstöðu, á hvern veg sem hún fer. Að öðru leyti fer um málsmeðferð samkvæmt stjórnsýslulögum.

16. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 17. gr. laga nr. 27/2010 um framhaldsfræðslu, öðlast þegar gildi.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 29. nóvember 2011.

 Katrín Jakobsdóttir.

   ____                          

Ásta Magnúsdóttir. 

B-deild – Útgáfud.: 20. desember 2011

Efst á síðu