Skrifstofa Símenntunarmiðstöðvarinnar á Akranesi í nýtt húsnæði

Í síðustu viku var skrifstofa Símenntunarmiðstððvar Vesturlands á Akranesi flutt frá Suðurgötu 57 í gamla HB-húsið við Bárugötu 8-10, sem er í eigu Brims. Skrifstofan er í þriðju hæð hússins sem hefur að undanförnu verið endurinnréttað fyrir ýmsa starfsemi. Eftir sem áður er námsver Símenntunar Vesturlands fyrst um sinn áfram á Suðurgötu 57 en mun síðar einnig flytjast í Bárugötu 8-10.

Sólveig Indriðadóttir er náms- og starfsráðgjafi og verkefnastjóri Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands á Akranesi. Hún er hæstánægð með nýju aðstöðuna og lítur björtum augum til framtíðarinnar þegar fleiri verða komnir með aðstöðu sína í húsið. Ætlunin sé að fyrirtæki og stofnanir sem leigja þarna rými geti nýtt sameiginlegt funda- og kennslurými í húsinu. „Þetta er mjög fín aðstaða, húsið er vel staðsett með útsýni yfir Faxaflóann,“ segir Sólveig.

Þróunarfélagið Breið var stofnað á Akranesi í byrjun júlí sl. þegar fulltrúar sautján fyrirtækja og stofnana skrifuðu undir samkomulag þar að lútandi. Í þetta verkefni var ráðist að forgöngu Akraneskaupstaðar og Brims, sem höfðu frá síðasta hausti unnið að undirbúningi að stofnun þróunarfélags um nýsköpun og atvinnuuppbyggingu.

„Búið er að innrétta þriðju hæð Brims-hússins og þangað hafa nú þegar nokkrir aðilar flutt skristofur sínar, m.a. Símenntunarmiðstöð Vesturlands. Við erum síðan að leggja línur með hönnun og nýtingu á fyrstu og annarri hæð hússins. Fyrir liggur að þar verða m.a. Fjölbrautaskóli Vesturlands með nýsköpunardeild, Fablab smiðja, rannsóknasetur Háskóla Íslands, Matís kemur til með að nýta húsnæðið til námskeiðahalds og báðir háskólarnir á svæðinu, Landbúnaðarháskólinn og Háskólinn á Bifröst, koma að málum. Það sama má segja um álklasann og við erum einnig að horfa til verkefnis með þróunarfélaginu á Grundartanga um grænan viðskiptahraðal. Breytingar á húsinu kostar eigandi þess, Brim, og leigir það síðan til þeirra sem verða í húsinu. Covid 19 hefur óneitanlega hægt á hraðanum við að koma húsinu í gagnið, það mun taka lengri tíma en við gerðum ráð fyrir í upphafi en eftir sem áður er hugmyndafræðin sú að húsið verði rannsókna- og nýsköpunarsetur. Til þess að gefa smá hugmynd um nokkur verkefni má nefna rannsóknir tengdar snjalltækni til notkunar í sjávarútvegi, rannsóknir á grjótkrabba og þriðja verkefnið tengist þróun og framleiðslu á umbúðaplasti úr þara. Þessum rannsóknaverkefnum er ætlað rými á annarri hæð hússins og þar verði einnig kennslurými, sem m.a. Símenntunarmiðstöðin mun nýta fyrir sína starfsemi. Við væntum þess að kennslurýmið verði tilbúið fljótlega eftir áramót.,“ segir Valdís Fjölnisdóttir, framkvæmdastjóri Þróunarfélagsins Breiðar.

Efst á síðu