Skipulagsskrá

Skipulagsskrá fyrir sjálfseignarstofnunina Símenntun á Vesturlandi

1. gr.

Almennar upplýsingar og hlutverk

Símenntun er sjálfseignarstofnun með sérstaka stjórn. Stofnunin ber ábyrgð á skuldbindingum sínum og er að öllu leyti sjálfstæð. Símenntun starfar samkvæmt ákvæðum laga nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

Heimili Símenntunar og varnarþing er á Vesturlandi.

Stofnendur Símenntunar eru:

Landbúnaðarháskóli Íslands (Bændaskólinn á Hvanneyri), Fjölbrautaskóli Vesturlands, Háskólinn á Bifröst (Samvinnuháskólinn á Bifröst), Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (Samtök sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi), Akraneskaupstaður, Borgarbyggð (Borgarfjarðarsveit, Hvítársíðuhreppur), Búnaðarsamtök Vesturlands, Dalabyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur, Grundarfjörður (Eyrarsveit), Brim hf. (Haraldur Böðvarsson hf.), Hvalfjarðarsveit (Hvalfjarðarstrandarhreppur, Innri-Akraneshreppur, Leirár- og Melahreppur, Skilmannahreppur), Kaupfélag Borgfirðinga, KG fiskverkun hf. (KG Fiskverkun ehf.), Laugaland hf. garðyrkjustöð, (Laugaland hf.), Mjólkursamsalan (Mjólkursamlagið Búðardal), Sementsverksmiðjan ehf. (Sementsverksmiðjan hf.), Skorradalshreppur, Snæfellsbær, Arion banki hf (Sparisjóður Mýrasýslu), Landsbankinn hf. (Sparisjóður Ólafsvíkur), Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu (Starfsmannafélag Akraness), Kjölur stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu (Starfsmannafélag Borgarbyggðar),  Heilbrigðisstofnun Vesturlands (St. Fransiskuspítali), Verkalýðsfélag Akraness,  Stéttarfélag Vesturlands (Verkalýðsfélag Borgarness), Verkalýðsfélag Snæfellinga (Verkalýðsfélagið Hörður), LímtréVírnet (Vírnet hf.), SKAGINN3X (Þorgeir og Ellert hf.)

Stofnanir, félög, einstaklingar og fyrirtæki geta orðið aðilar að stofnuninni með samþykki stjórnar og öðlast þá sama rétt og stofnaðilar.

2. gr.

Stofnfé

Stofnfé Símenntunar dags. 31.12.2021 er kr. 5.747.447, þar af kr. 1.000.000, óskerðanlegt stofnfé að raungildi. Eigi má fara með eigur stofnunarinnar eða ráðstafa þeim á annan hátt en þann er samrýmist markmiðum hennar eða stuðlar að framgangi þeirra.

3. gr.

Markmið

Meginmarkmið Símenntunar er að efla og styrkja íslenskt atvinnulíf og samfélag með endur- og símenntun sem tekur mið af þörfum atvinnulífs og einstaklinga. Sérstaklega skal stofnunin huga að þörfum íbúa á Vesturlandi m.a. með því að:

  • Námsframboð og þjónusta Símenntunar sé í takt við þarfir atvinnulífsins hverju sinni.
  • Vinna með sveitarfélögum, fyrirtækjum og stofnunum við mótun símenntunarstefnu þeirra og sérsniðinna námstækifæra.
  • Bjóða upp á faglega ráðgjöf og nám fyrir almenning, stofnanir og fyrirtæki sem stuðla að aukinni þekkingarsköpun og samkeppnishæfni.
  • Stuðla að þróun og nýsköpun á sviði fullorðinsfræðslu, s.s. í samstarfsverkefnum innanlands og erlendis.
  • Stuðla að samstarfi við fyrirtæki, stofnanir og aðila vinnumarkaðarins með það að markmiði að auka hæfni starfsfólks í takt við þarfir og kröfur atvinnulífsins.
  • Að veita náms- og starfsráðgjöf og stuðning við fullorðið fólk í atvinnulífinu.
  • Veita almenningi tækifæri til náms- og starfsþróunar sem styrkir hæfni og eykur lífsgæði.
  • Bjóða upp á raunfærnimat í ýmsum greinum og taka þátt í þróun þess.
  • Fylgjast með og tileinka sér nýjustu tækni í kennslu og ráðgjöf með það að markmiði að auka aðgengi og bæta þjónustu Símenntunar.
  • Stuðla að góðu samstarfi við aðrar menntastofnanir og aðila sem sinna fullorðinsfræðslu.  
  • Styrkja búsetuskilyrði á Vesturlandi og efla byggð.

4. gr.

 Ársfundur og kosning stjórnar

Stjórn Símenntunar er skipuð 5 aðilum. Tilnefningum skal skilað á ársfundi, en ársfundur kýs stjórn. Á sama hátt skal tilnefna eða kjósa hverjum stjórnarmanni varamann sem á seturétt á stjórnarfundum með málfrelsi og tillögurétt. Eftirtaldir aðilar tilnefna einn stjórnarmann hver og einn til vara:

-Framhaldsskólarnir á Vesturlandi, þ.e. Fjölbrautaskóli Snæfellinga, Fjölbrautaskóli Vesturlands og Menntaskóli Borgarfjarðar eiga sameiginlega fulltrúa.

-Fyrirtæki og stofnanir á Vesturlandi.

-Háskólarnir á Vesturlandi, þ.e. Háskólinn á Bifröst og Landbúnaðarháskóli Íslands eiga sameiginlega fulltrúa.

-Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi.

-Stéttarfélögin á Vesturlandi.

Á ársfundi 2022 eru fulltrúar stéttarfélaga, atvinnulífs og Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi kosnir til tveggja ára en fulltrúar háskóla og framhaldsskóla til eins ár. Eftir það eru fulltrúar allra aðila kosnir til tveggja ára.

Ársfund Símenntunar skal halda eigi síðar en 1. maí ár hvert. Formaður stjórnar boðar fulltrúa stofnaðila til ársfundar með dagskrá með minnst 7 daga fyrirvara. Tillögu um breytingar á skipulagsskrá Símenntunar skal getið sérstaklega í fundarboði. Á ársfundi skal skila inn tilnefningum í stjórn, leggja fram endurskoðaðan ársreikning ásamt ársskýrslu stjórnar.

Á ársfundi gildir einfaldur meirihluti og hver stofnaðili hefur eitt atkvæði. 

Að loknum ársfundi ár hvert skal birta ársskýrslu og endurskoðaðan ársreikning á vef Símenntunar  www.simenntun.is                                        

5.gr.

Stjórn og stjórnarfundir

Stjórnin skiptir með sér verkum til tveggja ára í senn. Samfelld seta formanns getur mest verið 6 ár. Stjórn Símenntunar fer með æðsta vald stofnunarinnar, mótar stefnu og vinnur að markmiðum hennar. Stjórn hefur yfirumsjón og eftirlit með öllum málefnum, eignum og rekstri stofnunarinnar, setur henni og starfsfólki reglur og ræður löggiltan endurskoðanda til að yfirfara ársreikninga. 

Formanni stjórnar er skylt að boða fund ef a.m.k. tveir stjórnarmenn krefjast þess. 

Á stjórnarfundum gildir einfaldur meirihluti.

Á stjórnarfundum eru skrifaðar fundargerðir á rafrænu formi og eru þær birtar á vef Símenntunar frá og með aðalfundi stofnunarinnar 2022.

Stjórnin skal setja sér starfsreglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd starfa hennar.

6. gr.

Framkvæmdastjóri

Stjórn ræður framkvæmdastjóra og starfar hann samkvæmt ráðningarsamningi. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur og ber ábyrgð gagnvart stjórn. Hann vinnur að framgangi stefnumála stofnunarinnar, öflun verkefna og því sem stjórnin ákvarðar hverju sinni. Jafnframt annast hann reiknisskil. Framkvæmdastjóri situr stjórnarfundi með málfrelsis- og tillögurétt. Framkvæmdastjóri annast ritun fundargerða á stjórnarfundum og sér til þess að þær séu birtar á vef Símenntunar.

7. gr.

Daglegur rekstur

Framkvæmdastjóri fer með stjórn fjármála Símenntunar í umboði stjórnar. Óheimilt er að stofna til útgjalda eða skuldbindinga umfram heimildir stjórnar. Reikningsár stofnunarinnar er almanaksárið 1. janúar  til 31. desember ár hvert. Framkvæmdastjóri skal fyrir 15. desember ár hvert leggja fram rekstrar- og starfsáætlun næsta árs fyrir stjórn til afgreiðslu. Hann skal sjá um að ársreikningur berist Ríkisendurskoðun með tilskildum hætti fyrir 30. júní ár hvert.

Framkvæmdarstjóri skal eigi síðar en 15. mars ár hvert leggja fram eftirtalin gögn fyrir stjórn Símenntunar til afgreiðslu:

-Ársskýrslu um starfsemi síðasta starfsárs. 

-Endurskoðaðan ársreikning liðins starfsárs. Ársreikningar skulu vera í samræmi við almennar viðurkenndar reikningsskilavenjur á hverjum tíma og endurskoðaðir af löggiltum endurskoðendum.

Um reikningshald fer að lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

8. gr.

Tekjur

Tekjur Símenntunar, auk vaxta af stofnframlagi, eru eftirfarandi: Opinber framlög, tekjur vegna innlendra og erlendra samstarfsverkefna, tekjur fyrir þjónustu og aðstöðu, tekjur af námskeiðum og aðrar sértekjur.

9. gr.

Breyting á skipulagsskrá og slit

Skipulagsskrá þessari verður aðeins breytt með ákvörðun 2/3 hluta fulltrúa á ársfundi.

Símenntun verður aðeins lögð niður með ákvörðun 2/3 fulltrúa á ársfundi.

Hægt er að boða til aukafundar stofnaðila ef þurfa þykir.

Verði stofnunin lögð niður skal eignum hennar ráðstafað á starfssvæði Símenntunar með tilliti til markmiða hennar, sjá 3. gr.

10. gr.

Staðfesting á skipulagsskrá

Leita skal staðfestingar dómsmálaráðherra á skipulagsskrá þessari, sem og breytingum sem kunna að verða gerðar á henni.

Borgarnesi, 16.03.2022

Efst á síðu