Innlend samstarfsverkefni

Samstarf Símenntunar og Borgarbyggðar vegna flóttamanna á Bifröst.

Símenntun veitir Borgarbyggð þjónustu náms- og starfsráðgjafa vegna flóttamanna á Bifröst. Þjónustan felur m.a. í sér að farið er yfir starfsreynslu og menntun viðkomandi með það að markmiði að finna vinnu við hæfi og/eða fræðslu eða nám, miðlun upplýsinga um laus störf í samstarfi við Vinnumálastofnun, fer yfir réttindi og skyldur á vinnumarkaði, aðstoða við gerð ferilskrár og atvinnuumsóknar og veitir ráðgjöf og handleiðslu vegna persónulegra aðstæðna og málefna.  

Símenntunarmiðstöðin býður einnig upp á námstækifæri fyrir flóttafólk á Bifröst, s.s. íslenskunámskeið og samfélagsfræðslu.

Samstarf Símenntunar og Vinnumálastofnunar

Símenntun er í mjög góðu samstarfi við Vinnumálastofnun Vesturlandi og býður atvinnuleitendum upp á fjölbreytta þjónustu innan framhaldsfræðslunnar, s.s.  viðtal hjá náms- og starfsráðgjafa, stöðupróf í íslensku, gerð ferilskrár, raunfærnimat og fjölbreytt nám.

Samstarf Símenntunar og Starfsendurhæfingar Vesturlands

Símenntun er stofnaðili að Starfsendurhæfingu Vesturlands en hlutverk StarfVest er að veita fólki starfsendurhæfingu sem hefur verið utan vinnumarkaðar vegna veikinda, slysa eða annarra aðstæðna og þurft stuðning við endurkomu á vinnumarkaðinn.

Símenntun og StarfVest eru í mjög góðu samstarfi og margir skjólstæðingar StarfVest stunda nám hjá Símenntun eða njóta annarrar þjónustu innan framhaldsfræðslunnar.

Sóknaráætlun Vesturlands – Nýbúar á Vesturlandi

Símenntun vinnur að áhersluverkefni Sóknaráætlunar Vesturlands sem nefnist Nýbúar á Vesturlandi.

Meginmarkmiðið með verkefninu er að styðja við íbúa af erlendum uppruna og efla þá til þátttöku á vinnumarkaði. Íbúar af erlendum uppruna eru í dag um 12% íbúa á Vesturlandi og til að styrkja þá á vinnumarkaði er boðið upp á ýmiss námskeið, auk þess sem grunnur að móttökuáætlun er unninn sem öll sveitarfélögin á Vesturlandi geta nýtt sér.

Sóknaráætlun Vesturlands – Velferðarstefna – öflugri öldrunarþjónusta

Einn hluti af þessu verkefni er að skipuleggja fræðslu fyrir starfsfólk stofnana á Vesturlandi sem veita öldruðum þjónustu. Fræðslan byggist m.a. á styttri námskeiðum, lengri námsleiðum, náms- og starfsráðgjöf og raunfærnimati.

Almennar upplýsingar um framhalds- og fullorðinsfræðslu á Íslandi

Fræðslusjóður framhaldsfræðslunnar

Fræðslusjóður starfar samkvæmt lögum um framhaldsfræðslu nr. 27/2010. Samkvæmt þeim er hlutverk sjóðsins að stuðla að því að til séu viðeigandi námstækifæri fyrir einstaklinga með stutta formlega skólagöngu að baki, jafnframt því að taka þátt í að skapa skilyrði svo sömu einstaklingar geti nýtt sér slík námstækifæri. Framlög til Fræðslusjóð eru ákveðin í fjárlögum hvers árs.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins – Menntun á vinnumarkaði

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins er einkahlutafélag í eigu Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins, BSRB, fjármála- og efnahagsráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins annast umsýslu með Fræðslusjóði og fjárreiðum hans, sbr. 10 gr. laga nr. 27/2010 um framhaldsfræðslu.

Framhaldsfræðsla | Menntamálastofnun

Á vef Menntamálastofnunar má finna ýmsar upplýsingar um framhaldsfræðslu.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið | Framhaldsfræðsla og símenntun

Framhaldsfræðslan heyrir undir Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og má nálgast gagnlegar upplýsingar hér á vef ráðuneytisins.

Símennt | Samtök fræðslu- og símenntunarmiðstöðva

Símennt er sameiginlegur vettvangur og hagsmunasamtök ellefu símenntunarmiðstöðva á landinu sem skiptast á að eiga fulltrúa í stjórn til tveggja ára í senn. Á vegum samtakanna eru haldnir tveir fundir á ári, á haustin og vorin, auk félagsfunda eftir þörfum.

Leikn

Leikn eru regnhlífarsamtök fullorðinsfræðsluaðila á Íslandi með 19 aðildarfélög. Leikn er upplýsinga- og samstarfsvettvangur fullorðinsfræðslu og er tilgangur samtakanna að gæta breiðra hagsmuna fullorðinsfræðsluaðila. Starfsemi og virkni samtakanna er í sjálfboðavinnu stjórnarfólks sem starfar innan fullorðinsfræðslunnar.

Næsta Skref – Störf, námsleiðir, raunfærni og starfsráðgjöf

Á þessum upplýsingavef er hægt að nálgast upplýsingar um nám, störf, raunfærnimat og ráðgjöf.

Efst á síðu