Samtal um stefnu í málefnum innflytjenda

Þann 24. janúar var haldin ráðstefnan: „Samtal um stefnu í málefnum innflytjenda“ (e. Discussion on Policy on Immigrant Matters) á vegum Félags – og vinnumarkaðsráðuneytis í Hjálmakletti í Borgarnesi. Jovana Pavlovic, markaðstjóri og fjölmenningarfulltrúi Símenntunar sá Vesturlandi opnaði ráðstefnuna með því að halda erindi um sína upplifun sem innflytjandi á Íslandi. Ræðan er mikilvæg innsýn í upplifun innflytjanda á Íslandi.

Á ráðstefnunni var meðal annars rætt um lýðræðisþátttöku innflytjenda og inngildingu (e. inclusion).Nýjustu rannsóknir hafa sýnt okkur að endurhugsa þarf stefnumótun og aðlögun því fólki af erlendum uppruna líður best þegar það getur samtímis tekið þátt í sínum eigin menningarheimi og í íslensku samfélagi, að „eitt þurfi ekki að útiloka annað“ eins Jovana bendir á í ræðu sinni. Einnig sköpuðust áhugaverðar umræður á ráðstefnunni, m.a. um íslenska tungu, menntun innflytjenda, mikilvægi fyrirmynda fyrir innflytjendur, kerfisbundin vandamál og aðgengi að upplýsingum.

 Íslenskt samfélag er stöðugt að verða ríkara af innflytjendum og fjölmenningarmálefni verða sífellt mikilvægari. Símenntun á Vesturlandi býður nú upp á fjölmenningarfærninámskeið sem hefur það að markmiði að auka meðvitund um fjölmenningu og efla jákvæð samskipti á milli fólks af ólíkum uppruna.


Efst á síðu