Handverksnámskeið í samstarfi við Art Tré slógu í gegn

Á dögunum lauk handverksnámskeiðum fyrir fólk með fötlun á Akranesi sem Símenntunarmiðstöð Vesturlands stóð fyrir í samvinnu við fyrirtækið Art Tré á Akranesi. Boðið var upp á grunn- og framhaldsnámskeið og var gerður mjög góður rómur að þeim. Í ljósi þess hversu vel námskeiðin heppnuðust er nokkuð ljóst að áfram verður haldið á þessari braut á haustönn.

Sigurást Aðalheiður Árnadóttir framkvæmdastjóri og ein eigenda fjölskyldufyrirtækisins Art Tré segist vera afar ánægð með þessa frumraun í þessari tegund handverksnámskeiða fyrir fólk með fötlun á Akranesi og hún segist strax farin að sjá fyrir sér útvíkkun á slíku námskeiðahaldi á haustönn sem myndi þá ná til fólks víðar af Vesturlandi.

 

„Þetta voru í heildina fjögur námskeið, tvö grunnnámskeið og tvö framhaldsnámskeið. Tuttugu og tveir voru skráðir á grunnnámskeiðin og fimmtán á framhaldsnámskeiðin. Aðsóknin var því mjög góð og þátttakendur lýstu mikilli ánægju með útkomuna,“ segir Sigurást.

„Grunnnámskeiðið var tíu tímar og framhaldsnámskeiðið aðrir tíu tímar. Það má eiginlega segja að fyrirtækið okkar sé stór FabLab smiðja. Á grunnnámskeiðinu fékk fólk tækifæri til þess að gera ýmsa smáhluti í öllum tækjunum sem við höfum og kynnast því hvað hægt er að gera. Á framhaldsnámskeiðinu ákváðum við að hafa þemað húsgagnasmíði og var sófaborð smíðaverkefnið,“ segir Sigurást. Námskeiðin voru í húsnæði Art Tré við Ægisbraut á Akranesi en þessa dagana er fyrirtækið að flytja starfsemi sína í nýsköpunarsetrið Breiðina og verður þar í rými við hlið Fab Lab smiðju Vesturlands. Sigurást sér fyrir sér mikla möguleika í samstarfi fyrirtækisins og Fab Lab og nýtt húsnæði gefi mun meiri og betri möguleika til námskeiðahalds

 

 

Ívar Örn Reynisson hefur núna á vorönn haldið utan um fjölbreytt námskeið fyrir fólk með fötlun á vegum Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands. Hann segir að þrátt fyrir ýmsar takmarkanir vegna Covid hafi tekist ótrúlega vel að halda sjó í námskeiðahaldinu á þessari önn og í það heila hafi námskeiðin verið á annan tuginn. „Að langmestu leyti tókst okkur að halda okkar striki með námskeiðin, sem er mjög ánægjulegt, og þeim er flestum lokið. Yfirskrift námskeiðanna er Aukin lífsgæði og eins og hún gefur til kynna miða námskeiðin að því að auka lífsgæði fólks með fötlun, annars vegar til þess að auka hæfni þess og hinn og ekki mikilvægur þáttur er að fólk hittist og njóti góðra samverustunda.

Á Fellsenda í Dölum höfum við sem dæmi verið með Tónlist og tal og Bollakökunámskeið, við höfum verið með sundnámskeið í Ólafsvík og Borgarnesi, boccianámskeið í Borgarnesi og snyrtinámskeið í Ólafsvík og Stykkishólmi. Stærstu námskeiðin hafa síðan verið á Akranesi, annars vegar kvikmyndanámskeið og hins vegar handverksnámskeiðið í samvinnu við Art Tré. Árangurinn af öllum námskeiðum á önninni er mjög góður og við erum afar sátt við útkomuna,“ segir Ívar Örn.

 

 

Borð sem hönnuð voru og smíðuð á námskeiðinu
Lyklakippur úr tré

 

 

Efst á síðu