Raunfærnimat í búfræði hefst í nóvember

Núna á síðari hluta haustannar mun Símenntunarmiðstöð Vesturlands raunfærnimeta fimm einstaklinga í búfræði. Raunfærnimatið verður unnið í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Allir þessir fimm einstaklingar eru í búskap víða um land og er meðalaldur þeirra 36 ár.

Síðastliðið vor bauð Símenntunarmiðstöð Vesturlands í samstarfi við Landbúnaðarháskólann í fyrsta skipti hér á landi upp á raunfærnimat í búfræði og fóru tíu einstaklingar í gegnum það. Á þessa frumraun var litið sem tilraunaverkefni sem heppnaðist mjög vel. Ástæða þótti til að halda áfram á þessari braut. Því er nú farið af stað á ný með raunfærnimat í búfræði og af viðbrögðum að dæma telur Sólveig Indriðadóttir, verkefnastjóri Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands á Akranesi, að ástæða sé til að ætla að töluverð spurn verði eftir slíku raunfærnimati í framtíðinni.

Sólveig segir að örfáum atriðum hafi verið breytt í raunfærnimatinu frá liðnu vori en grunnurinn sé eftir sem áður sá sami.

Fjórir matsaðilar vinna að raunfærnimatinu og eru þeir allir kennarar í búfræði við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Ólöf Ósk Guðmundsdóttir, aðjúnkt við Landbúnaðarháskólann og fyrrverandi námsbrautarstjóri búfræðibrautar skólans, segir jákvætt að nú sé boðið upp á raunfærnimat í búfræði, mikilvægt sé að fólk geti fengið þekkingu sína metna með þessum hætti. „Raunfærnimatið tekur mið af þeim áföngum sem eru kenndir í búfræði hér á Hvanneyri. Þetta er nýjung hjá okkur í búfræðinni en hins vegar er það þekkt úr garðyrkjunni,“ segir Ólöf.

Hvað er raunfærnimat?
Þeir sem fara í raunfærnimat, í hvaða starfsgrein sem er, skulu vera að lágmarki 23 ára gamlir og hafa að baki að minnsta kosti þriggja ára starfsreynslu í viðkomandi starfsgrein.
Raunfærnimat er ferli þar sem er metin þekking og færni fólks í starfi, námi og félagsstörfum. Markmiðið er að geta sýnt fram á reynslu og hæfni fólks í starfi með formlegum hætti. Með raunfærnimatinu getur fólk fengið starf sitt metið til styttingar náms í framhaldinu.
Mat á raunfærni fólks eða raunfærnimat, eins og það er oftast kallað, hefur verið þróað víða um heim á síðustu áratugum. Sjónum var fyrst beint að þessari leið í Bandaríkjunum en síðan hefur hún verið tekin upp í Evrópulöndum og víðar. Raunfærnimat hefur verið þekkt á Íslandi frá því fljótlega upp úr aldamótunum og hafa símenntunarmiðstöðvar um allt land unnið með það í fjölmörgum atvinnugreinum. Fræðslusjóður framhaldsfræðslunnar fjármagnar raunfærnimatið fyrir þá sem hafa ekki lokið formlegri menntun.

Gangur raunfærnimats er í öllum meginatriðum hinn sami, óháð því í hvaða atvinnugrein viðkomandi starfar. Vinnan við matið hefst á því að þátttakandi skráir þá raunfærni sem hann hefur öðlast í gegnum starf sitt, nám og frístundir. Hann safnar einnig saman skjölum sem staðfesta fyrra nám og störf. Staðan er síðan greind og metin í samtali við matsaðila. Að lokum fær sá sem er raunfærnimetinn formlega staðfestingu á matinu.
Raunfærnimat í búfræði er víðtækt og tekur til ótal þátta í landbúnaði og öllu er lýtur að búrekstri. Í gátlistanum eru m.a. hugtök eins og búfjárhald, fóðurverkun, rúningur, atferli búfjár, sauðfjárrækt, nautgriparækt, búrekstur, bútækni- og byggingar, mjaltaþjónar, heimavinnsla afurða, járningar o.s.frv.

Matsviðtöl í gegnum fjarfundabúnað
Sólveig Indriðadóttir segir að raunfærnimat þessara fimm bænda hefjist í nóvember og verða matsviðtölin að mestu í gegnum Teams fjarfundabúnað. Hún segist vonast til að sem mestu af raunfærnimatinu verði lokið fyrir áramót.
„Að loknum matsviðtölum eru niðurstöður færðar inn í Innu – sem þýðir að þær eru skráðar inn í hið formlega skólakerfi – og í framhaldinu fær viðkomandi gögnin send til sín,“ segir Sólveig.

Efst á síðu