Heimsóttu SÍMEY og Þekkingarnet Þingeyinga

„Heimsóknir okkar í símenntunarmiðstöðvarnar á Akureyri og Húsavík voru mjög ánægjulegar. Við fengum góðar kynningar á starfsemi stöðvanna og miðluðum einnig ýmsu til þeirra um það sem við erum að fást við,“ segir Inga Dóra Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands, en í liðinni viku heimsótti hún og samstarfsfólk hennar, Guðrún Vala Elísdóttir, Magnús Smári Snorrason og Sólveig Indriðadóttir, Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar á Akureyri og Þekkingarnet Þingeyinga á Húsavík.

Ellefu símenntunarmiðstöðvar landsins eiga með sér mjög gott samstarf á ýmsum sviðum. Áherslur miðstöðvanna eru að nokkru leyti ólíkar sem helgast af mismunandi áherslum í atvinnulífi svæðanna en mörg verkefni þeirra eru af svipuðum toga. Sameiginlegur vettvangur símenntunarmiðstöðvanna er Kvasir, sem eru samtök fræðslu- og símenntunarmiðstöðva. Markmið þeirra eru að efla símenntun og framhaldsfræðslu á Íslandi og vinna að sameiginlegum hagsmunamálum símenntunarmiðstöðvanna.

„Það er okkur sem störfum við framhaldsfræðsluna mjög mikilvægt að gefa okkur tíma til að bera saman bækur okkar, miðla upplýsingum milli símenntunarmiðstöðvanna og kynna þau þróunarverkefni sem unnið er að. Allt skiptir þetta máli í því að efla starfið. Heimsóknir okkar í SíMEY og Þekkingarsetur Þingeyinga voru í senn ánægjulegar og fróðlegar og vil ég nota tækifærið og þakka starfsfólki beggja stöðva fyrir að taka svo höfðinglega á móti okkur. Það er alveg ljóst að við munum gera meira af því í framtíðinni að heimsæka aðrar símenntunarmiðstöðvar í því skyni að efla tengslin og safna í sarpinn ýmsum gagnlegum upplýsingum til eflingar starfs okkar hjá Símenntunarmiðstöð Vesturlands,“ segir Inga Dóra.

Á meðfylgjandi mynd, sem var tekin fyrir utan SÍMEY á Akureyri, eru standandi frá vinstri: Kristín Björk Gunnarsdóttir verkefnastjóri hjá SÍMEY, Sólveig Indriðadóttir náms- og starfsráðgjafi og verkefnastjóri hjá Símenntunarmiðstöðinni á Vesturlandi, Magnús Smári Snorrason verkefnastjóri hjá Símenntunarmiðstöðinni á Vesturlandi og Valgeir Magnússon framkvæmdastjóri SÍMEY. Sitjandi frá vinstri: Sigrún Björnsdóttir bókari hjá SÍMEY, Ingunn Helga Bjarnadóttir verkefnastjóri og ráðgjafi hjá SÍMEY, Sandra Sif Ragnarsdóttir verkefnastjóri og náms- og starfsráðgjafi hjá SÍMEY, Guðrún Vala Elísdóttir verkefnastjóri og náms- og starfsráðgjafi hjá Símenntunarmiðstöðinni á Vesturlandi, Inga Dóra Halldórsdóttir framkvæmdastjóri Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi og Helgi Þorbjörn Svavarsson verkefnastjóri og ráðgjafi hjá SÍMEY.

Efst á síðu