Heimsókn í Landnámssetrið í Borgarnesi
Allmikill fjöldi flóttafólks frá Úkraínu hefur fengið inni á Bifröst sem fyrsta stopp á Íslandi. Meðal þess sem fólkinu hefur staðið til boða eru námskeið í íslensku og samfélagsfræðslu, sem Símenntun Vesturlands hefur haft umsjón með fyrir hönd Vinnumálastofnunar, sem fjármagnar kennsluna.
Liður í fræðslunni er oftast heimsókn í Landnámssetrið í Borgarnesi, en nemendur hafa fengið að fræðast um starfsemina og skoða sýningarnar. Ekkert hefur verið rukkað í aðgangseyri og hafa forsvarsmenn setursins sýnt örlæti og samhug með fólki sem hefur oft þurft að ganga í gegnum miklar hremmingar.
Á heimasíðu setursins segir m.a.:
„Í Landnámssetrinu er sögð saga Landnámsins og söguþráður Egilssögu rakinn. Gesturinn er leiddur áfram með hljóðleiðsögn sem hægt er að fá á 15 tungumálum“.