Ratleikir sem tól í símenntun

Ratleikir sem tól í símenntun er heiti samvinnuverkefnis íslenska hugbúnaðarfyrirtækisins Locatify og Símenntunar á Vesturlandi. Verkefnið hlaut styrk úr Fræðslusjóði Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins árið 2020, þar sem unnið var að því að efla leiðir til að nota ratleiki í kennslu. Verkefninu lauk með námskeiði í ratleikjagerð í lok nóvember 2023.

Markmið þess var að efla fjölbreytni í kennsluháttum í framhaldsfræðslu, leikjavæða nám og tengja það umhverfi þannig að nemendur geti lært og leikið sér á sama tíma, á meðan þeir taka þátt í ratleik.

Kennarar símenntunarmiðstöðva geta nýtt umsjónarkerfi Locatify og ratleikjaforritið Turfhunt til að útbúa kennsluefni fyrir nemendur sína. Tól fyrir kennara í símenntun voru betrumbætt. Kennslukerfið var þróað frekar og ýmsum áskorunum bætt við ratleikjakerfið, fleiri aðferðir eru nú fyrir hendi til að miðla þekkingu.

Samvinnuverkefninu lauk með fjarkennslu í ratleikjagerð sem boðið var upp á fyrir kennara allra  símenntunarstöðva á landinu.  Kennari frá Locatify stóð á bak við námskeiðið en fulltrúar Símenntunar á Vesturlandi buðu kennurum í framhaldsfræðslu þátttöku. Hópur þeirra kennara sem tóku þátt í námskeiðinu getur unnið saman að leikjagerð og deilt verkefnum og spurningabanka til að útbúa kennsluefni í framhaldsfræðslu.

Vonir standa til að ratleikir verði nýttir vel sem tól í símenntun á komandi árum. 

Efst á síðu