Fjarpróf á vorönn 2023
Nú fer að líða að lokum vorannar í flestum skólum á Íslandi. Við hjá Símenntun bjóðum upp á aðstöðu til prófstöku fyrir fjarnema á Vesturlandi. Það er mikils virði fyrir hvert samfélag að fólk geti stundað framhaldsmenntun á sínu heimasvæði og höfum við því frábært fólk og góða aðstöðu víða í landshlutanum til að taka á móti nemendum þegar kemur að prófum sem krefjast yfirsetu.
Á þessari vorönn hafa verið þreytt rúmlega 260 próf hjá Símenntun frá sjö mismunandi menntastofnunum á landinu. Með aukinni tækniþróun hefur framkvæmd próftöku orðið auðveldari, mörg próf eru tekin beint á tölvur, en önnur eru send með tölvupósti eða í gegnum forrit, prentuð út, skönnuð og send til baka. Allt fer þetta eftir ákveðnu ferli sem er í hraðri þróun í takt við þá vakningu í samfélaginu um lífsgæðin sem felast í fjarvinnu og fjarnámi.