Fræðslu- og menningarferð til Póllands

Starfsmenn Símenntunar á Vesturlandi lögðu land undir fót og fóru í fræðslu- og menningarferð til Varsjár í Póllandi dagana 19. til 23. apríl. 

Bauðst starfsmönnum að fá fræðslu um sögu borgarinnar, um pólskt stjórnkerfi, vinnumarkaðinn og vinnumarkaðsúrræði.  Enn fremur var fjallað um helstu viðbrögð og aðgerðir við móttöku flóttafólks frá Úkraínu auk annarra innflytjenda sem koma til Póllands. Athygli vakti m.a. að sérstakar aðgerðir eru til þess aðstoða burtflutta Pólverja sem snúa aftur heim til að aðlagast sínu gamla heimalandi á nýjan leik.

Pólverjar eru stærsti hópur innflytjenda á Íslandi og því mikilvægt og gagnlegt fyrir starfsfólk Símenntunar að kynnast pólskum áherslum, sögu og menningu. Þeir eru jafnframt næstir á eftir Úkraínumönnum, stærsti hópur viðskiptavina okkar af erlendum uppruna en fjöldi Pólverja kemur á íslenskunámskeið, í raunfærnimat, á námsbrautir og í viðtöl hjá náms- og starfsráðgjöfum okkar á hverju ári. 

Ferðin heppnaðist afar vel og ekki var verra að veðrið lék við hópinn með vor í lofti, sól og hita.  

Efst á síðu