Mikilvæg hvatning
Á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins í dag var Sigurður Þorsteinn Guðmundsson á Akranesi annar tveggja sem fengu viðurkenningar sem fyrirmynd í námi fullorðinna. Sigurður er gott dæmi um nemanda sem hefur ekki látið ýmsar hindranir og vind í fangið koma í veg fyrir að ná takmarki sínu. Svo sannarlega er Sigurður öðrum fyrirmynd í námi.
Á yngri árum bjó Sigurður með fjölskyldu sinni erlendis en fór í 5. bekk grunnskóla þegar hann flutti til landsins. Áherslan var á íslenskukennslu því hann stóð jafnöldrunum talsvert að baki í íslensku – bæði í tali og rituðu máli. Hann fer ekki leynt með að ADHD ásamt lesblindu hafi verið honum mikil og erfið hindrun. Aðrar námsgreinar en íslenska lentu aftarlega á forgangslistanum og smám saman dróst Sigurður aftur úr jafnöldrum sínum í skóla, sem varð til þess að eftir grunnskólann hætti hann námi. Hann fór hins vegar á ýmis námskeið, aflaði sér m.a. pungaprófsréttinda til sjós. Það söfnuðust því í sarpinn nokkrar framhaldsskólaeiningar. Sigurður afréð síðan að fara í framhaldsskóla en fann fljótt að það gekk ekki upp. Hætti þar og fór út á vinnumarkaðinn. Af ýmsum ástæðum keyrði hann þar á vegg, brann út og leitaði til VIRK og fór þaðan í Starfsendurhæfingu Vesturlands. Þessi tími segir Sigurður að hafi verið honum erfiður enda heimilið stórt og þungt, tvö af fjórum börnum þeirra hjóna séu með sérþarfir. Því hafi það verið honum ómetanlegt að fá þá aðstoð og leiðsögn sem VIRK hafi veitt.
Sigurður afréð að fara í gegnum matsferli hjá Símenntunarmiðstöð Vesturlands. Til að byrja með var metin almenn starfshæfni og út frá því mati segist Sigurður hafa öðlast sjálfstraust og fengið trúna á að hann gæti, þrátt fyrir allt, tekist á við ýmislegt. Í framhaldinu fór Sigurður í raunfærnimat fyrir félagsliða, sem hann segir að hafi gengið ótrúlega vel. Til þess að komast í raunfærnimatið þurfti undanþágu því hann hafði ekki áskilda þriggja ára starfsreynslu sem félagsliði. Hins vegar hafði vitaskuld safnast saman mikil reynsla Sigurðar á þessu sviði í vinnu með eigin börn. Allt í kringum raunfærnimatið segir Sigurður að hafi verið afar jákvætt, vel hafi verið staðið að málum og honum hafi liðið mjög vel í því ferli.
Að loknu raunfærnimatinu tók Sigurður skrefið og innritaði sig á félagsliðabrú í Borgarholtsskóla í Reykjavík og það nám stundar hann nú og lætur vel af. Námið er byggt upp á þremur lotum á hverri önn og á milli þeirra er fjarnám.
Námið í Borgarholtsskóla segir Sigurður að sé vissulega umtalsverð viðbót við hans daglegu störf á heimilinu og fulla vinnu sem félagsliði í sjálfstæðri búsetu fyrir fimm einstaklinga á Akranesi. Í þessu starfi hefur Sigurður verið frá því á síðasta ári.
Þegar Sigurður horfir til baka segist hann vera Símenntunarmiðstöð Vesturlands þakklátur fyrir að hafa greitt hans götu og tekið honum opnum örmum. Lærdómurinn af hans ferli sé fyrst og fremst sá að mikilvægast sé að taka skrefið, banka upp á hjá símenntunarmiðstöðvunum og fá leiðsögn og stuðning til að finna bestu leiðirnar til þekkingaröflunar. Síðast en ekki síst segist hann afar þakklátur eiginkonu sinni, Fríði Ósk Kristjánsdóttur, fyrir allan hennar stuðning og hvatningu.
Sigurður segir viðurkenningu Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins hafa komið skemmtilega á óvart, hún sé mikilvæg hvatning til þess að halda ótrauður áfram í námi sínu.
Á þessu myndbandi, sem var sýnt á ársfundinum í dag, segir Sigurður Þorsteinn Guðmundsson sögu sína.