Símenntun vinnur fræðsluáætlun með Fellsenda

Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi hefur á undanförnum mánuðum unnið að gerð fræðsluáætlunar fyrir hjúkrunarheimilið Fellsenda í Dalabyggð. Hjúkrunarheimilið er sérhæft með þjónustu fyrir fullorðna einstaklinga með geðraskanir.

Fellsendi tók þátt í verkefninu Fræðslustjóri að láni en verkefnið byggist á að lána mannauðsráðgjafa til fyrirtækja, sérhæfðum í vinnustaðafræðslu og óformlegri menntun.  Ráðgjafinn fer yfir fræðslu- og þjálfunarmál fyrirtækisins, dregur fram það sem vel er gert, gerir eða dýpkar greiningu á þörfum fyrirtækisins og samhæfir við önnur námskeið eða viðurkenndar fræðsluleiðir innan óformlega fræðslukerfisins. Verkefnið er styrkt af starfsmennasjóðum stéttarfélagana.

Meðal námskeiða sem eru komin á dagskrá má nefna: Fræðsla um geðsjúkdóma, Samskipti og samvinna, Skyndihjálp og starfstengd íslenska svo eitthvað sé nefnt. Auk þessa verður boðið upp á náms- og starfsráðgjöf og kynningu á möguleikum raunfærnimats.  Á dögunum kynnti Magnús Smári verkefnastjóri Símenntunar drög að áætlun til tveggja ára og var mikil ánægja með að fá aukna fræðslu fyrir starfsfólk. Fræðsla sem sniðin er að þörfum starfsfólks og vinnustaðar er líkleg til að auka starfsánægju og styrkja faglegt starf. Fræðsluáætlun sem byggir á þarfagreiningu getur því verið mikilvægur þáttur í starfseminni.

 

 

Efst á síðu