Stökkpallur fyrir atvinnuleitendur á íslensku, pólsku og ensku

Núna á vorönn býður Símenntunarmiðstöð Vesturlands í samstarfi við Vinnumálastofnun Vesturlandi upp á fjögur námskeið í Stökkpalli – vottaðri námsleið Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Tvö námskeiðanna eru á íslensku, eitt á pólsku og eitt á ensku. Einu námskeiði er þegar lokið en hin þrjú eru enn í gangi. Námskeiðin eru í fjarnámi og eru flestir þátttakendur af Vesturlandi og Norðurlandi vestra en einnig nokkrir af Suðurnesjum. 

Bryndís Bragadóttir, náms- og starfsráðgjafi hjá Vinnumálastofnun Vesturlandi, segir að kórónuveirufaraldurinn hafi leitt af sér þörf fyrir nýja hugsun og nálgun við að miðla fræðslu til atvinnuleitenda. Í staðnámi hittist nemendur og kennarar og persónuleg samskipti skapist. Fjarnámið hafi hins vegar þann kost að fólk geti stundað námið að heiman óháð búsetu og það gefi möguleika á að ná til fleiri en ella. 

Stökkpallur er settur upp sem 180 klukkustunda nám en þessi fjarnámskeið fyrir atvinnuleitendur í samstarfi Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands og Vinnumálastofnunar eru 100 klukkustundir. „Stökkpallur var í boði á pólsku fyrir atvinnuleitendur á haustönn 2021 og í ljósi góðrar reynslu af því námskeiði ákváðum við að halda áfram á sömu braut núna á vorönn. Námsefnið er mjög breitt og tekur til markmiðasetningar og sjálfseflingar og samskipta og samstarfs. Einnig er fjallað um íslenskan vinnumarkað og þátttakendur fá kennslu í að útbúa ferilskrá. Það er mjög mikilvægt að geta boðið upp á þessi námskeið á fleiri tungumálum en íslensku svo þau nýtist sem best fyrir atvinnuleitendur, óháð þjóðerni, segir Bryndís.  

Stökkpallsnámskeiðin eru í fimm vikur og er kennt samkvæmt stundaskrá alla virka daga frá kl. 08:30 til 14:00 með góðum hléum yfir daginn.  

Bryndís segir að núna, þegar sól taki að hækka á lofti og smám saman dragi úr áhrifum kórónuveirufaraldursins, skapist ný störf og fækki á atvinnuleysisskrá. Þess vegna hafi ekki verið talin þörf á að bjóða upp á fleiri Stökkpallsnámskeið á þessari önn. Staðan verði síðan metin aftur í haust með Símenntunarmiðstöðinni.  

„Þetta hefur gengið mjög vel og við höfum sem fyrr átt mjög gott samstarf við Símenntunarmiðstöðina. Þar er hugsað í lausnum og í sameiningu reynum við að finna leiðir til að setja upp nám sem nær til sem flestra, segir Bryndís Bragadóttir.  

Efst á síðu