Símenntun annast skipulagningu og kennslu námskeiða í tæknilæsi fyrir eldra fólk

Að undangengnu útboði hefur Símenntunarmiðstöð Vesturlands gert samning til eins árs við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um skipulagningu og kennslu fjórtán námskeiða í tæknilæsi fyrir eldra fólk á Vesturlandi (60 ára og eldri). Hvert námskeið er átta klukkustundir í staðnámi og eru kennd á tveimur vikum í fjórum tveggja klukkustunda lotum. Kennslan er einstaklingsmiðuð, á hverju námskeiði eru að hámarki átta manns á hvern leiðbeinanda. Námskeiðin, sem eru ókeypis fyrir þátttakendur, verða haldin á Akranesi, í Hvalfjarðarsveit, Borgarnesi, Búðardal, Stykkishólmi, Grundarfirði og Ólafsvík.  

Tæknilæsi fólks sem komið er á efri ár er afar mismunandi. Þessum námskeiðum, sem félags- og vinnumarkaðsráðuneytið fjármagnar, er ætlað að auka þekkingu fólks á notkun nútíma tæknilausna.  

Auk almennrar tölvunotkunar verður kennd notkun snjalltækja (síma og spjaldtölva), fjallað um rafræn skilríki og notkun þeirra, rafræn samskipti (tölvupóstur og notkun annarra samskiptamiðla), netverslun, notkun heimabanka o.fl.  

Á Akranesi er nú þegar lokið fyrsta námskeiðinu og núna á vormánuðum verða fleiri námskeið haldin. Þráðurinn verður síðan tekinn upp á haustönn 2022. Skráning á námskeiðin verður auglýst á hverjum stað með góðum fyrirvara.   

 

Efst á síðu