MA- lokaverkefni í náms- og starfsráðgjöf

Réttur grunnskólanema til náms- og starfsráðgjafar

Steinar Sigurjónsson náms- og starfsráðgjafi Símenntunar á Vesturlandi kynnti nýverið niðurstöður MA-lokaverkefnis síns á uppskeruhátíð á vegum Félags náms- og starfsráðgjafa og námsbrautar náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands. Rannsóknin var megindleg og alls svöruðu 49 starfandi náms- og starfsráðgjafar í grunnskólum á Íslandi spurningalista Steinars. Megin viðfangsefni rannsóknarinnar var að kanna hvort réttur allra grunnskólanemenda til náms- og starfsráðgjafar væri tryggður á Íslandi. Eins voru skoðuð önnur atriði er tengjast rétti nemenda að náms- og starfsráðgjöf.

Niðurstöður Steinars gáfu m.a. til kynna að mestur tími náms- og starfsráðgjafanna fari í verkefni tengd persónulegri ráðgjöf. Sú niðurstaða er í  samræmi við fyrri rannsóknir og vísar til þess að aðrir þættir starfsins fái minna vægi (s.s. náms- og starfsráðgjöf, starfsþróun og innra starf  og náms- og starfsfræðsla). Þá sýndu niðurstöður Steinars einnig að náms- og starfsráðgjafar telji starfssvið sitt ekki nægilega skýrt og afmarkað. Leita má skýringa á þessu á ýmsum sviðum m.a. til óskýrleika í lagaramma og aðalnámskrár grunnskóla, vöntun á sí- og endurmenntun, misræmi á milli starfsvettvangs og áherslna í námi, úreltrar almennrar starfslýsingar o.fl. 

Þá kom einnig fram í niðurstöðum Steinars að meirihluti náms- og starfsráðgjafa í grunnskólum nýtir sér ekki alhliða náms- og starfsráðgjafaráætlun (e. comprehensive guidance and counseling programs) en mjög stór hluti telur að slík áætlun geti aukið fagleg vinnubrögð. Í gegnum tíðina hafa fræðimenn á sviðinu bent á að slíkar áætlanir geti verið gagnlegt verkfæri í starfi náms- og starfsráðgjafa. Þær má m.a. nota til að auka utanumhald, skilvirkni, mælanleika og eftirfylgni starfs og þjónustu náms- og starfsráðgjafa. Niðurstöður Steinars leiddu einnig í ljós að náms- og starfsráðgjafar eru í formlegu samstarfi við aðra náms- og starfsráðgjafa en telja mikla þörf á frekara samstarfi þeirra á milli.

Í niðurstöðum Steinars bendir hann á að réttur nemenda til náms- og starfsráðgjafar og -fræðslu er til staðar og fer ekki á milli mála samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011; lög um grunnskóla nr. 91/2008; lög um samning Sameinuðu þjóðanna nr. 19/2013). Hins vegar kom skýrt fram að meirihluti náms- og starfsráðgjafa í rannsókninni telur að réttur nemenda til náms- og starfsráðgjafar í grunnskólum sé almennt ekki tryggður. Í lokin setti Steinar fram tillögur að úrbótum sem hann vonar að veiti stjórnvöldum og náms- og starfsráðgjöfum innblástur til að gera enn betur og stuðla þannig að farsæld barna. Þann 1. júlí má finna heildartexta ritgerðar Steinars inn á Skemmu

Mynd. Þær tillögur sem Steinar setti fram út frá niðurstöðum rannsóknarinnar, opinberum skýrslum um fagið og fyrri rannsóknum.

Efst á síðu