Aðalfundur Símenntunar 2023

Aðalfundur Símenntunar á Vesturlandi var haldinn á Hótel Hamri, Borgarnesi, miðvikudaginn 22. mars 2023.

Hefðbundin aðalfundarstörf voru á dagskrá. Björg Ágústdóttir bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar var kosin fundarstjóri en Guðrún Vala Elísdóttir, framkvæmdastjóri Símenntunar kynnti ársskýrslu og ársreikninga fyrir viðstöddum.

Farið var yfir starfssemi Símenntunar 2022 sem einkenndist af miklum breytingum í bland við trausta og fjölbreytta þjónustu sem veitt er af stofnuninni.

Breytingarnar fólust helst í nýju nafni, vefsíðu, breyttu heildarútliti og einkennismerki sem tekið var í notkun.

Þar að auki voru breytingar í starfsmannahaldi. Þrír starfsmenn sögðu stöðu sinni lausri og fóru til annarra starfa. Þau Inga Dóra Halldórsdóttir, Sólveig Indriðadóttir og Magnús Smári Snorrason og var þeim þakkað fyrir vel unnin störf.

Guðrún Vala tók við stöðu framkvæmdastjóra af Ingu Dóru og nýtt fólk bættist í hópinn. Steinar Sigurjónsson var ráðinn sem náms- og starfsráðgjafi og verkefnastjóri og Dagbjört Dúna Rúnarsdóttir sem verkefnastjóri. Þar að auka hafa Ívar Örn Reynisson og Hekla Gunnarsdóttir verkefnastjórar komið til starfa á þessu ári.

Starfsemin og þjónustan sem veitt var 2022 var með bæði hefðbundnu sniði en einnig bættust við ný verkefni og var þeim gert skil á fundinum.

  • Haldin voru mörg og fjölbreytt íslenskunámskeið víða í landshlutanum,
  • Unnið var sérstaklega með flóttafólki frá Úkraínu sem búsett er á Bifröst í samstarfi við Borgarbyggð
  • 37 einstaklingar fóru í gegnum raunfærnimat,
  • Náms- og starfsráðgjafar veittu 601 viðtöl og voru ríflega helmingur við ráðþega af erlendum uppruna   
  • 217 nemendur voru á vottuðum námskeiðum FRAE
  • Um 520 fjarpróf voru tekin frá níu skólum
  • 12 námskeið voru haldin fyrir fólk með fötlun víða í landshlutanum
  • Fjögur erlend samstarfsverkefni voru í gangi
  • Fræðsluáætlanir voru unnar með tveimur sveitarfélögum á Vesturlandi
  • Fyrirtækjafræðsla og fræðslustjóri að láni hjá stofnunum og fyrirtækjum
  • Og margt, margt fleira

Ekki urðu breytingar í stjórn. Kosið er til tveggja ára í senn í tveimur hlutum. Meiri hluti í núverandi stjórnar var kosin á aðalfundi 2022 sem gildir þá til 2024, og tveir stjórnarmeðlimir voru kosnir áfram núna til ársins 2025.

Efst á síðu