Íslensk menning fyrir erlenda skiptinema í LBHÍ

Nú er námskeiðinu Íslensk menning fyrir erlenda skiptinema í LBHÍ sem hófst í haust lokið. Að þessu sinni voru 24 nemendur sem sátu námskeiðið frá tíu löndum. Flestir voru frá Þýskalandi, Frakklandi, Svíþjóð og Póllandi en allir þátttakendur eru nemendut við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri.

Námskeiðið var alls 14 klukkustundir og samanstóð af fjölbreyttri kynningu á íslenskri sögu og menningu, íslenskukennslu og tveimur vettvangsferðum. Undanfarin ár hefur þetta námskeið verið kennt í samstarfi LBHÍ og Símenntunar á Vesturlandi.

Í fyrri vettvangsferðinni var haldið í uppsveitir Borgarfjarðar. Fyrst var komið við í Deildartunguhver og Kraumu þar sem starfsemin var kynnt fyrir nemendum. Því næst var farið í Reykholt, Snorrasýningin skoðuð og hlustað var á ítarlegan fyrirlestur um líf og stöf Snorra Sturlusonar. Að endingu var haldið að Hraunfossum þar sem nemendur fengu tækifæri til að njóta haustlitanna og einstakra birtuskilyrða sem mynduðust við sólsetur. 

Seinni vettvangsferðin var á Akranes. Fyrst var farið í Akranesvita þar sem Hilmar staðarhaldari hélt tölu um starfsemi vitans, leiðbeinandi og nemendur fluttu tónlist og nutu síðan útsýnisins. Að því loknu var Byggðasafnið á Görðum heimsótt og sýningin þar skoðuð.

Efst á síðu