Símenntun og Fjölmennt í samvinnu í SAGE Evrópuverkefninu
Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi tekur nú þátt í Erasmus+ Evrópuverkefninu SAGE – Silver Age Learning, sem hefur það að markmiði að efla hreyfingu og almenna lýðheilsu eldra fólks. SAGE verkefnið rak á fjörur Símenntunar fyrir tilstilli Fjölmenntar, sem er aðili að því af Íslands hálfu. Símenntun tók að sér að „prufukeyra“ verkefnið hér á landi og sú vinna hófst í byrjun október og lýkur í nóvember.
Að sögn Ívars Arnar Reynissonar verkefnisstjóra var fyrsti hluti verkefnisins hreyfing, annar hluti þess tekur til næringar eldra fólks og þriðji hlutinn er slökun. Ívar segir mun meiri þátttöku í verkefninu en hann hafi þorað að vona, sem sé virkilega ánægjulegt.
Ívar Örn segist hafa haft samband við Sóleyju Sigurþórsdóttur, formanns Félags eldri borgara í Borgarnesi og nágrenni, og hún hafi strax tekið vel í þá hugmynd að „prufukeyra“ verkefnið í Borgarnesi. Sóley sendi út boð á póstlista félagsmanna og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Í fyrsta hluta verkefnisins, sem hófst í byrjun október og er nú lokið, var lögð áhersla á að virkja fólk til hreyfingar og fór kennslan fram í íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi. Annar hluti verkefnisins, fyrirlestrar um næringu eldra fólks, er nú hafinn og þriðji hlutinn verður kennsla í slökun og núvitund. Sem fyrr greinir er SAGE Evrópuverkefni og eru aðrir þátttakendur í því frá Grikklandi, Slóveníu, Tékklandi og Ítalíu.
„Kennslan er samkvæmt forskrift SAGE og við fylgjum fyrirliggjandi kennsluefni. Síðan er það í höndum kennaranna að útfæra og laga námsefnið að námshópunum. Í okkar tilfelli ákvað íþróttakennarinn í samráði við þátttakendur í verkefninu í Borgarnesi að leggja meiri áherslu á verklega hlutann, þannig að fólk hefði kost á rýmri tíma til þess að læra notkun tækjanna í líkamsræktarsalnum,“ segir Ívar Örn.
Fyrir liggur skjalfest í óteljandi skýrslum og greinargerðum, bæði hér á landi og út um allan heim, að öll hreyfing fólks sem komið er af léttasta skeiði seinkar öldrun og eykur vellíðan þess. Einn af mikilvægum þáttum í þessu er að lyfta lóðum og styrkja vöðva líkamans. Ívar Örn segir að aðgengi fólks að alls kyns hreyfingu sé mjög góð á höfuðborgarsvæðinu en á minni stöðum utan þess sé aðstaðan ekki jafn góð. Þessi mikla aðsókn og áhugi eldra fólks í Borgarnesi á þátttöku í SAGE verkefninu staðfesti þörfina.
„Ég hef vonir um að eftir áramót getum við einnig boðið eldra fólki á Akranesi upp á þetta nám og í framhaldinu verði mögulegt að halda áfram á þessari braut – ekki bara hér á Vesturlandi heldur út um allt land. Þörfin er mikil og það er mikilvægt lýðheilsumál að auka fjölbreytta hreyfingu eldra fólks. Vert er að hafa í huga að hlutfallslega mun eldra fólki fjölga hér á landi á komandi árum og því mun þörf fyrir fjölþætta hreyfingu þessa aldurshóps stöðugt aukast. Fyrirfram hefði ég ekki búist við því að fá ástríðu fyrir fullorðinsfræðslu aldraðra. Reyndin hefur hins vegar orðið önnur og eftir að hafa tekið þátt í þessu Evrópuverkefni er þetta orðið mér mikið hjartans mál,“ segir Ívar Örn Reynisson.