Mikil ánægja með Emil og tímaflakkið

„Áhuginn var mjög mikill og þátttakan góð. Útkoman var stórkostleg,“ segir Ásta Pála Harðardóttir, yfirþroskaþjálfi hjá Fjöliðjunni á Akranesi, um kvikmyndina Emil og tímaflakkið, sem fólkið í Fjöliðjunni á Akranesi, sem er verndaður vinnustaður fyrir fólk með fötlun, vann í vetur með Heiðari Mar Björnssyni kvikmyndagerðarmanni. Myndin var sýnd í Bíóhöllinni á Akranesi miðvikudagskvöldið 30. júní sl. og markaði sýningin upphafið á Írskum dögum á Akranesi. Kvikmyndin var afrakstur kvikmyndanámskeiðs sem var samstarfsverkefni Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi og Fjöliðjunnar á Akranesi.

„Gerð þessarar stuttmyndar gaf fólkinu í Fjöliðjunni gífurlega mikið. Að búa til kvikmynd frá grunni eflir hugmyndaauðgi og styrkir þátttakendur. Fólkið hafði mjög mikla ánægju af þessari vinnu og það eru allir í skýjunum með útkomuna. Heiðar Mar á mikinn heiður skilið fyrir sína vinnu. Hann nálgaðist verkefnið á frábæran hátt, náði mjög vel til fólksins og allir fengu að njóta sín. Sumir vildu ekki leika í myndinni og vera fyrir framan myndavélina en þeir fengu þess í stað að vera fyrir aftan myndavélina og mynda og vinna að öðrum verkefnum við gerð myndarinnar,” segir Ásta Pála.

Hún segir alla staðráðna í því að halda áfam á þessari braut næsta vetur enda sé markmiðið að virkja sem flesta til þátttöku og reynslan hafi sýnt að þessi kvikmyndaverkefni séu vel til þess fallin. „Hjá okkur í Fjöliðjunni er mikilvægt að fólkið sé virkt og hluti af samfélaginu og mikilvægur þáttur í því er þetta samstarf við Símenntunarmiðstöðina á Vesturlandi um ýmis námskeið, þar á meðal þetta kvikmyndanámskeið. Við sjáum að þátttakan í þessum námskeiðum er alltaf að aukast og eftir að myndin var frumsýnd í Bíóhöllinni lýstu margir sem ekki höfðu tekið þátt í gerð þessarar myndar því yfir að þeir ætluðu sannarlega að taka þátt í gerð næstu myndar. Það má því búast við að hún verði meira en stuttmynd,“ segir Ásta Pála.

Heiðar Mar Björnsson hefur auk kvikmyndanámskeiðanna verið með ljósmyndanámskeið fyrir fólkið í Fjöliðjunni og þar hefur fyrst og fremst verið lögð áhersla á að kenna notkun myndavéla í snjallsímum. Hann segist hafa haft mikla ánægju af þessum námskeiðum og sé mjög ánægður með afrakstur þeirra. „Við gerð Emils og tímaflakksins tókum við fyrst nokkra klukkutíma í handritavinnuna og síðan fórum við í tökur sem áttu að taka þrjá daga en vegna veikinda eins leikarans bættum við við fjórða tökudeginum. Námskeiðið var í heildina 35 klukkutímar og við nýttum þá ljómandi vel. Við byrjuðum á gerð myndarinnar í mars sl. og lukum tökum í apríl. Þetta er annað árið sem við gerum svona mynd, myndin sem við gerðum í fyrra heitir Næturfærð og var undir áhrifum annars vegar frá Næturvaktinni og hins vegar Ófærðar. Þeir sem tóku þátt í gerð Næturfærðar í fyrra lærðu helmikið um hvernig kvikmyndagerð virkar og sú kunnátta nýttist vel í ár. Handritið varð til út frá óskum þátttakenda um hvaða hlutverk þeir vildu leika. Síðan settist hópurinn niður og mótaði handritið og loks var farið í tökur. Emil og tímaflakkið, sem er tæplega tuttugu mínútna löng, varð til út frá annars vegar Emil í Kattholti og hins vegar bankaræningjanum Ömmu Hófý,“ segir Heiðar Mar.

„Þetta var frábærlega skemmtilegt. Hópurinn sem tók þátt í þessu var frjór og skapandi og naut þess að taka þátt. Ég hafði áður verið með fólkinu á kvikmyndanámskeiði og ljósmyndanámskeiði og þekkti því ágætlega til þess. Við unnum út frá þeirri reglu að ef við hefðum ekki gaman yrði myndin aldrei góð og ef einhver færi í fýlu færum við í göngutúr og reynslan var sú að enginn nennti að fara í göngutúr! Þess vegna var alltaf stuð hjá okkur við gerð myndarinnar og það skilar sér í henni. Ég er mjög ánægður með útkomuna. Það fengu allir að njóta sín og það var frábært að verða vitni að þeirri gleði sem skein úr hverju andliti á frumsýningu myndarinnar í Bíóhöllinni.“

Allar tökur í Emil og tímaflakkinu voru á safnasvæði Byggðasafnins í Görðum á Akranesi. Ástæðan er sú að rauða húsið þar líkist á ýmsan hátt rauða húsinu í kvikmyndinni um Emil í Kattholti. Heiðar segir að þar hafi hann sett upp „greenscreen“ og kvikmyndagerðarfólkið hafi valið ýmsa bakgrunna.

Fólkið í Fjöliðjunni sá alfarið um allar tökur og leik í Emil og tímaflakkinu en Heiðar lagði til tökubúnað af bestu gerð, eins og notaður er við kvikmyndagerð. Heiðar sá um eftirvinnslu, klippingu og hljóðblöndun en val á tónlist í myndinni var í höndum þátttakenda í verkefninu.

„Við gerð Næturfærðar í fyrra tóku nokkrir þátt, í ár fjölgaði þátttakendum töluvert og allir vilja taka þátt í næsta verkefni,“ segir Heiðar Mar Björnsson.

Efst á síðu