Vetrarstarfið að fara í fullan gang

Í ljósi aukins atvinnuleysis um allt land vegna covid 19 heimsfaraldursins búa símenntunarmiðstöðvar landsins sig undir aukna aðsókn í nám í vetur. Magnús Smári Snorrason, verkefnastjóri hjá Símenntunarmiðstöðinni á Vesturlandi, segir að þessa dagana sé unnið að undirbúningi vetrarstarfsins, sem fari í fullan gang í byrjun september. Til stendur að bjóða upp á ýmis námskeið og námsleiðir sem henti atvinnuleitendum í góðu samstarfi við Vinnumálastofnun„

Magnús nefnir einnig að á haustönn verði sem fyrr boðið upp á t námskeið í íslensku fyrir innflytjendur, stefnt sé að því að bjóða upp á námskeið sem kallist Samfélagstúlkun „og við munum fara í heimsókn í fyrirtæki og bjóða upp á sérsniðin námskeið fyrir þau,“ segir Magnús.

Samhæfingarhópur um atvinnu- og menntaúrræði, sem var skipaður af mennta- og menningarmálaráðherra og félags- og barnamálaráðherra sl. vor, hefur unnið að ýmsum tillögum að menntaúrræðum fyrir námsmenn og atvinnuleitendur við breyttar aðstæður í þjóðfélaginu vegna covid 19. Fyrir liggur að framhaldsfræðslan, sem ein af mikilvægum stoðum undir menntun í landinu, mun gegna ríku hlutverki við að mæta aukinni þörf fyrir nám af ýmsum toga.

Inga Dóra Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi, býst við að fljótlega liggi fyrir útfærsla á hugmyndum samhæfingarhópsins og framhaldsfræðslan sé í startholunum að taka við auknum verkefnum. „Við erum með sveigjanlegt kerfi og getum brugðist hratt við. Það sýndum við þegar þurfti skyndilega að færa nám úr staðnámi í fjarnám sl. vetur vegna útbreiðslu covid 19. Við búum líka að reynslunni eftir efnahagshrunið 2008 þegar við þurftum að bregðast fljótt við.

Þegar svona aðstæður eru uppi í samfélaginu er mikilvægt að allir leggist á eitt og framhaldsfræðslan mun leggja sín lóð á vogarskálarnar í þeim efnum,“ segir Inga Dóra.

Efst á síðu