Íslensk menning og samfélag í fjarnámi
Nú er hafin þriðja námsvika af tæplega fimm á námskeiðinu Íslensk menning og samfélag, sem er fyrir fólk af erlendum uppruna til að auðvelda því að laga sig að samfélaginu og vinnumarkaðnum. Námið er vottað af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi heldur námskeiðið í samstarfi við Vinnumálastofnun.
Námið er samtals í 180 klukkustundir og eru þrettán þátttakendur, ellefu þeirra eru búsettir á Vesturlandi en tveir á Vestfjörðum. Sá yngsti er 24 ára en sá elsti 55 ára og koma þeir frá sex þjóðlöndum. Síðasti námskeiðsdagur verður 16. desember. Stefnt er að því, ef sóttvarnareglur leyfa, að ljúka náminu með menningarferð til höfuðborgarinnar í því skyni að sýna þátttakendum ýmsa þá staði sem hafa borið á góma í náminu.
Guðrún Vala Elísdóttir, verkefnastjóri hjá Símenntunarmiðstöðinni á Vesturlandi, segir að fljótlega hafi verið ljóst, í ljósi sóttvarna- og fjöldatakmarkana, að kenna yrði námskeiðið í fjarnámi. Þess vegna hafi verið farin sú leið í upphafi að hitta nemendur og fara yfir tæknimálin með þeim, kenna þeim að nota fjarfundakerfið Teams og þeir sem ekki höfðu aðgang að fjartölvum fengu þær lánaðar. Þá segir Guðrún Vala að íslenskukunnátta fólks sé eðlilega misjöfn, sem geri það að verkum að fjarkennsla sé töluvert flóknari en staðkennsla. Með samstilltu átaki hafi bæði nemendur og kennarar sýnt mikla þrautseigju og sigrað þá þröskulda sem hafi þurft að fara yfir. Námskeiðið er allt í gegnum Teams fjarfundakerfið og hefur að sögn Guðrúnar Völu gengið vel, þó að einhverjir tæknilegir hnökrar hafi komið upp.
„Þetta nám er sambærilegt við það sem við höfum boðið upp á áður fyrir Vinnumálastofnun, nema að nú er alfarið kennt í fjarnámi. Þó að þetta sé bæði krefjandi og skemmtilegt jafnast ekkert á við samskipti í kennslustofu með þeim krafti og gleði sem þar er hægt að skapa,“ segir Guðrún Vala.
Gott og farsælt samstarf
Bryndís Bragadóttir, náms- og starfsráðgjafi hjá Vinnumálastofnun Vesturlandi, segir að Vinnumálastofnun hafi lengi átt í góðu og farsælu samstarfi við Símenntunarmiðstöðina á Vesturlandi og þetta námskeið, Íslensk menning og samfélag, sé hluti af því samstarfi.
„Við höfum áður verið í samstarfi við Símenntunarmiðstöðina um námskeiðið Landnemaskólinn sem síðan breyttist í Íslensk menning og samfélag. Námið er hugsað fyrir fólk sem hefur lokið grunnnámskeiðum í íslensku og getur tekið þátt í samræðum. Frekara nám í íslensku er hluti af þessu námi og það hefur líka víðtæka samfélagstengingu. Til stóð að kennt yrði í staðnámi en vegna aðstæðna í samfélaginu vegna Covid þurfti að bregðast við og færa kennsluna á netið. Ég verð að hrósa starfsfólki Símenntunarmiðstöðvarinnar fyrir hvernig það leysti úr málum á skjótan og öruggan hátt,“ segir Bryndís.
Hún segir mikilvægt að atvinnuleitendur séu í virkni og Vinnumálastofnun vilji stuðla að því að þeir sæki námskeið til að efla þá og styrkja. „Það er hluti af virkni fólks í atvinnuleit, lögum samkvæmt, að sitja þau námskeið sem er í boði. Í flestum tilfellum tekur fólk því fagnandi að fá tækifæri til þess að taka slík námskeið,“ segir Bryndís.