Símenntun á Vesturlandi starfar samkvæmt lögum um framhaldsfræðslu nr. 27/2010 sem miðar að því að veita einstaklingum með stutta formlega skólagöngu tækifæri til frekari menntunar.
Framhaldsfræðsla nær yfir hverskonar nám, úrræði og ráðgjöf sem er ætlað að mæta þörfum einstaklinga með stutta formlega skólagöngu að baki og er ekki skipulagt á grundvelli laga um framhaldsskóla eða háskóla.
Gildissvið, markmið, skilgreiningar.
Gildissvið.
Lög þessi taka til skipulags framhaldsfræðslu á vegum fræðsluaðila sem viðurkenningu hljóta samkvæmt lögum þessum og þátttöku ríkissjóðs í kostnaði við framkvæmd hennar.
Markmið.
Markmið framhaldsfræðslu samkvæmt lögum þessum er:
a. að veita einstaklingum með stutta skólagöngu að baki aukin tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu,
b. að veita einstaklingum á vinnumarkaði með stutta formlega skólagöngu að baki viðeigandi námstækifæri og auðvelda þeim að hefja nám að nýju,
c. að gefa einstaklingum færi á að efla starfshæfni sína og efla ábyrgð þeirra í því tilliti,
d. að skapa svigrúm og úrræði til að mæta þörfum atvinnulífsins fyrir aukna þekkingu og hæfni starfsmanna,
e. að veita einstaklingum sem búa við skerta möguleika til náms eða atvinnuþátttöku framhaldsfræðslu þar sem tekið er mið af ójafnri stöðu þeirra og hæfni,
f. að afla viðurkenningar á gildi náms sem fellur utan hins formlega framhaldsskóla- og háskólakerfis,
g. að stuðla að því að nám og reynsla sem aflað er utan hins formlega skólakerfis verði metin að verðleikum og
h. að efla menntunarstig í landinu og íslenskt menntakerfi.
Skilgreiningar.
Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
a. Framhaldsfræðsla: Hvers konar nám, úrræði og ráðgjöf sem er ætlað að mæta þörfum einstaklinga með stutta formlega skólagöngu að baki og er ekki skipulagt á grundvelli laga um framhaldsskóla eða háskóla.
b. Raunfærnimat: Skipulegt ferli þar sem með formlegum hætti er lagt mat á alhliða þekkingu og færni einstaklings. Matið getur byggst á skólagöngu, starfsreynslu, starfsnámi, frístundanámi, framhaldsfræðslu, félagsstörfum og lífsreynslu viðkomandi.
c. Fræðsluaðili: Sjálfstæður lögaðili sem veitir framhaldsfræðslu og hefur hlotið viðurkenningu ráðherra á grundvelli laga þessara.
Um skipan framhaldsfræðslu.
Yfirstjórn.
[Ráðherra] 1) fer með yfirstjórn málefna framhaldsfræðslu samkvæmt lögum þessum. Í því felst ábyrgð á:
a. almennri stefnumótun framhaldsfræðslu í samráði við hagsmunaaðila,
b. almennri stjórnsýslu vegna framkvæmdar laga þessara,
c. málefnum Fræðslusjóðs,
d. stuðningi við þróun og nýsköpun á sviði framhaldsfræðslu og
e. eftirliti og mati.
1)L. 126/2011, 523. gr.
Tilhögun.
Framhaldsfræðslu skal miða við þarfir einstaklinga til virkrar þátttöku í samfélaginu, fyrirtækja og atvinnulífs. Að jafnaði skal námsframboði háttað þannig að hægt sé að leggja stund á nám samhliða atvinnuþátttöku. Haft skal samráð við heildarsamtök launafólks og atvinnurekenda um framkvæmd laga þessara og er ráðherra heimilt að fela stofnunum eða félögum á þeirra vegum verkefni er tengjast framkvæmd þeirra, sbr. 15. gr.
Hafa skal reglulegt samráð við fræðsluaðila sem starfa á grundvelli laga þessara um framkvæmd framhaldsfræðslunnar. Leitast skal við að skipuleggja framhaldsfræðslu þannig að hún geti fallið að öðru námi og að hægt sé að meta nám sem skilgreint er sem framhaldsfræðsla til eininga innan hins almenna skólakerfis. Heimilt er ráðherra að setja sérstakar reglur 1) um flokkun og þrepaskiptingu framhaldsfræðslu í samræmi við hæfni- og lokamarkmið hennar.
1) Augl. 400/2021.
Vottun námskráa.
Gerðar skulu námskrár eða námslýsingar þar sem lýst er markmiðum framhaldsfræðslu, skipulagi námsins og inntaki.
Ráðherra, eða aðili sem hann felur það verkefni skv. 15. gr., vottar einstakar námskrár og námslýsingar. Í slíkri vottun felst staðfesting á að námið uppfylli almennar kröfur um skipulag og gæði kennslu, ásamt þeim sértæku kröfum sem gera má hverju sinni með tilliti til inntaks náms.
Viðurkenning fræðsluaðila.
Ráðherra, eða aðili sem hann felur það verkefni, veitir fræðsluaðilum viðurkenningu til þess að annast framhaldsfræðslu. Viðurkenning skal byggjast á mati á eftirtöldum þáttum:
a. aðstöðu til kennslu og námskeiðahalds,
b. skipulagi náms og umsjón með því,
c. námskrám eða námslýsingum,
d. hæfni þeirra sem annast framhaldsfræðslu með tilliti til þekkingar þeirra og reynslu,
e. fjárhagsmálefnum og tryggingum og
f. tilvist gæðakerfis með áherslu á nám fullorðinna.
Í viðurkenningu ráðherra skv. 1. mgr. felst staðfesting á því að starfsemi viðkomandi fræðsluaðila uppfylli, á þeim tíma sem viðurkenning er veitt, skilyrði laga þessara og reglna sem settar eru með stoð í þeim.
Í viðurkenningu felst ekki skuldbinding um fjárframlög úr ríkissjóði til viðkomandi fræðsluaðila eða ábyrgð á skuldbindingum hans.
Uppfylli fræðsluaðili, sem fengið hefur viðurkenningu, ekki lengur skilyrði laga þessara og reglur og skilyrði sem sett eru á grundvelli þeirra getur ráðherra afturkallað viðurkenninguna.
Í reglugerð skal kveðið nánar á um skilyrði fyrir viðurkenningu, hvernig staðið er að veitingu hennar og afturköllun.
Reikningar fræðsluaðila skulu áritaðir af löggiltum endurskoðanda og vera aðgengilegir ríkisendurskoðanda eigi síðar en þremur mánuðum eftir lok reikningsárs.
Raunfærnimat, náms- og starfsráðgjöf.
Þeir sem hafa stutta formlega skólagöngu og kjósa að leggja stund á nám sem skipulagt er á grundvelli laga þessara eða laga um framhaldsskóla eiga rétt á að einstaklingsbundin raunfærni þeirra sé metin. Matið fer fram samkvæmt reglum sem ráðherra setur um raunfærnimat og tilhögun þess.
Þeim sem hyggjast leggja stund á nám sem uppfyllir skilyrði laga þessara stendur til boða einstaklingsbundin náms- og starfsráðgjöf. Ráðherra er heimilt að setja reglur um náms- og starfsráðgjöf samkvæmt grein þessari.
Opinber framlög til framhaldsfræðslu, Fræðslusjóður.
Fjárveitingar.
Alþingi veitir af fjárlögum fé til framhaldsfræðslu og viðfangsefna er henni tengjast. Þau framlög greinast í tvennt:
a. framlög til að mæta kostnaði við viðfangsefni og umsýslu er tengist framhaldsfræðslu með almennum hætti samkvæmt lögum þessum, þ.m.t. reglubundin rekstrarframlög til aðila sem sinna framhaldsfræðslu og sérstökum viðfangsefnum er varða menntunarmál fullorðinna,
b. framlög í Fræðslusjóð.
Fræðslusjóður, hlutverk.
Hlutverk Fræðslusjóðs er að stuðla að því að til séu viðeigandi námstækifæri fyrir einstaklinga með stutta formlega skólagöngu að baki. Jafnframt er það hlutverk sjóðsins að taka þátt í að skapa skilyrði fyrir því að einstaklingar geti nýtt sér slík námstækifæri. Með því stuðlar sjóðurinn að þeim markmiðum sem talin eru í 2. gr.
Fræðslusjóður ráðstafar þeim framlögum sem Alþingi ákveður í fjárlögum hverju sinni. Úthlutanir Fræðslusjóðs greinast í meginatriðum í þrennt samkvæmt úthlutunarreglum sem ráðherra staðfestir:
a. framlög til fræðsluaðila til að mæta kostnaði við kennslu og námskeiðahald,
b. framlög til að mæta kostnaði við raunfærnimat og náms- og starfsráðgjöf,
c. styrkveitingar til nýsköpunar- og þróunarverkefna í framhaldsfræðslu.
Stjórn Fræðslusjóðs ber ábyrgð á ráðstöfun fjár úr Fræðslusjóði. Auglýsa skal eftir umsóknum frá fræðsluaðilum um framlög og stuðning til að mæta kostnaði við kennslu og námskeiðahald. Heimilt er stjórn Fræðslusjóðs að veita fræðsluaðilum sem njóta framlaga úr sjóðnum vilyrði um framlög til allt að þriggja ára, með fyrirvara um fjárveitingar Alþingis.
Stjórn Fræðslusjóðs skal setja sérstaka skilmála um fjárframlög til fræðsluaðila og annarra sem njóta framlaga úr Fræðslusjóði sem ráðherra staðfestir. Sjóðurinn skal birta yfirlit yfir nám sem sjóðurinn veitir fé til.
Heimilt er ráðherra að semja við til þess bæra aðila um að annast fjárreiður og umsýslu með sjóðnum. Jafnframt getur ráðherra falið stjórn Fræðslusjóðs að hafa umsjón með sérstökum verkefnum er tengjast framhaldsfræðslu og framkvæmd laga þessara.
Stjórn Fræðslusjóðs.
Ráðherra skipar Fræðslusjóði níu manna stjórn til fjögurra ára í senn. Formaður er skipaður án tilnefningar, Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins tilnefna tvo fulltrúa hvort, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Félag íslenskra framhaldsskóla tilnefna einn fulltrúa hvort, [það ráðuneyti er fer með starfsmannamál ríkisins] 1) og Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefna einn fulltrúa sameiginlega og [sá ráðherra er fer með málefni vinnumarkaðar] 1) einn. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
Stjórn Fræðslusjóðs setur sér starfs- og úthlutunarreglur sem ráðherra staðfestir. Í þeim skal koma fram hvernig meðferð umsókna er háttað og almenn skilyrði fyrir veitingu framlaga úr sjóðnum.
1)L. 126/2011, 523. gr.
Mat og eftirlit með gæðum.
Markmið.
Markmið mats og eftirlits með gæðum framhaldsfræðslu er:
a. að tryggja að starfsemi fræðsluaðila sé rekin í samræmi við ákvæði laganna, reglna sem settar kunna verða á grundvelli þeirra og námskráa skv. 6. gr.,
b. að stuðla að gæðum fræðslustarfs samkvæmt lögum þessum og
c. að virt séu réttindi einstaklinga sem nýta sér þjónustu sem rekin er á grundvelli laganna.
Miðlun og varðveisla upplýsinga.
Ráðuneyti annast söfnun og miðlun upplýsinga um framhaldsfræðslu er varðar stefnumótunar- og eftirlitshlutverk þess. Fræðsluaðilum sem fengið hafa viðurkenningu og stuðning er skylt að veita ráðuneyti og Fræðslusjóði upplýsingar um fræðslustarfsemi sína, árangur hennar og þróun og aðrar þær upplýsingar sem nauðsynlegar teljast, m.a. um ráðstöfun fjármuna og vegna vinnu við tölfræði. Ráðuneyti getur jafnframt falið öðrum aðila með samningi verkefni sín samkvæmt þessari grein. Við slíka ráðstöfun er fræðsluaðilum skylt að veita þeim aðila umbeðnar upplýsingar. [Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun að annast söfnun og miðlun upplýsinga samkvæmt þessari grein.] 1)
Fræðsluaðila ber að varðveita upplýsingar um það nám sem nemendur hafa lagt stund á og lokið og að veita þeim aðgang að þeim.
Heimilt er ráðherra að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um upplýsingaskyldu fræðsluaðila samkvæmt grein þessari og um meðferð persónuupplýsinga, þar á meðal um námsferil nemenda.
1)L. 91/2015, 10. gr.
Framkvæmd mats á fræðslustarfi.
Fræðsluaðilar meta sjálfir með kerfisbundnum hætti árangur og gæði fræðslustarfsins og birta opinberlega upplýsingar um innra gæðamat sitt og áætlanir um umbætur í kjölfar þess.
Ráðherra hefur umsjón með úttektum, könnunum og rannsóknum sem miða að því að tryggja almenn gæði framhaldsfræðslu og almennan skilning og þekkingu á málefnum er henni tengjast. Framkvæmd slíkra verkefna skal að jafnaði falin óháðum aðila. [Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun að annast umsjón samkvæmt þessari grein.] 1)
1)L. 91/2015, 10. gr.
Ýmis ákvæði, reglugerð, gildistaka.
Umsýsla.
[Heimilt er ráðherra að semja við félag eða fela Menntamálastofnun eða öðrum ríkisaðila umsjón með verkefnum sem tilgreind eru í 6. gr. um vottun námskráa og námslýsinga, í 7. gr. um viðurkenningu fræðsluaðila, í 10. gr. um umsýslu með Fræðslusjóði og í 13. gr. um söfnun og miðlun upplýsinga.] 1)
1)L. 91/2015, 10. gr.
Kæruheimild.
Ákvarðanir fræðsluaðila og Fræðslusjóðs samkvæmt lögum þessum sæta ekki kæru til ráðherra.
Reglugerð.
Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð 1) nánari fyrirmæli um framkvæmd laga þessara.
1)Rg. 1163/2011, sbr. 931/2014.
Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 1. október 2010.