Útskrift úr Færni á vinnumarkaði

Síðustu þrjá mánuði hefur staðið yfir metnaðarfullt tilraunaverkefni í samstarfi  Símenntunar, Vinnumálastofnunar, Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Fjölmenntar. Verkefnið heitir Færni á vinnumarkaði og er markmið þess er að efla hæfni fatlaðs fólks til aukinnar atvinnuþátttöku og er samstarfsverkefni fyrrgreindra aðila um að byggja brýr á milli kerfa og út á vinnumarkaðinn. Um var að ræða 180 klst nám sem skiptist í 70 klst  bóklegt nám og 110 klst starfsþjálfun á vinnustað.  Í bóklega hlutanum var farið yfir grunnþætti s.s. réttindi og skyldur, samskipti á vinnustað og verkefni rýnd sem tengjast því starfi sem færniþjálfunin fór fram í. Auk þess var lögð  áhersla á að efla trú þátttakenda á eigin getu þ.e. að vinna með styrkleika sína og að eflast í ræðu, riti og starfi. 

Símenntun á Vesturlandi hafði umsjón með bóklega hluta námsins. Aðspurð segir Bjarney kennari:


„Ef að það er eitthvað sem ég myndi vilja koma á framfæri þá er það að hvetja fyrirtæki og stofnanir til að horfa til þessa hóps þar sem mikill vannýttur mannauður er til staðar. Fólk sem vill taka þátt á vinnumarkaði en fær ekki tækifæri til þess. Með réttu viðhorfi, stuðningi og starfi við hæfi eru þau full fær um það, auk þeirra verðmæta sem felast í aukinni fjölbreytni.“

Búið var að færnigreina 6 mismunandi störf  sem þátttakendur gátu óskað eftir að komast í starfsþjálfun í. Störfin eru á leikskóla, í verslun, á lager/vöruhúsi, í endurvinnslu, við þrif og þjónustu og við umönnun. Þátttakendur stunduðu námið af miklum metnaði, hafa sótt fræðslu tvo daga í viku og vinnu þrjá daga í viku og notið stuðnings frábærra kennara, stuðningsaðila og starfsþjálfa á vinnustöðunum. Verkefnið gekk vonum framar og lauk námskeiðinu með útskrift í Borgarnesi þann 18. desember síðastliðinn.

Útskriftarnemarnir, frá vinstri: Ásgeir Sigurðsson, Bryndís Jóna Hilmarsdóttir, Guðmundur Ingi Einarsson, Júlíana Ósk Davíðsdóttir, Unnar Eyjólfur Jensson, Þorkell Rafnar Hallgrímsson.

Útskriftarnemarnir ásamt kennurum og stuðningsfulltrúum: frá vinstri: Dagbjört Birgisdóttir, Bjarney Láru- Bjarnadóttir, Þorkell Rafnar Hallgrímsson, Guðmundur Ingi Einarsson, Unnar Eyjólfur Jensson, Ásgeir Sigurðsson, Áslaug Berta Guttormsdóttir, Kara Lau Eyjólfsdóttir, Ragnheiður Eva Guðmundsdóttir.Sitjandi eru Bryndís Jóna Hilmarsdóttir og Júlíana Ósk Davíðsdóttir.

Efst á síðu