Lög um náms- og starfsráðgjafa

Þingskjal 847, 136. löggjafarþing 422. mál: náms- og starfsráðgjafar (heildarlög, EES-reglur).
Lög nr. 35 3. apríl 2009.


1. gr. Starfsheitið náms- og starfsráðgjafi.     

Rétt til að kalla sig náms- og starfsráðgjafa og starfa sem slíkur hefur sá einn sem til þess hefur leyfi menntamálaráðherra, sbr. 2. mgr.
     Leyfi skv. 1. mgr. skal veita umsækjanda sem lokið hefur námi í náms- og starfsráðgjöf frá háskóla sem hlotið hefur viðurkenningu menntamálaráðherra samkvæmt lögum nr. 63/2006.

2. gr. Matsnefnd.     

Leiki vafi á hvort umsækjandi um leyfi til þess að nota starfsheitið náms- og starfsráðgjafi fullnægi þeim skilyrðum sem kveðið er á um í lögum þessum skal leita umsagnar matsnefndar sem menntamálaráðherra skipar til fjögurra ára í senn.
     Matsnefnd skal skipuð þremur fulltrúum, einum frá félagi náms- og starfsráðgjafa, einum tilnefndum af samstarfsnefnd um háskólastigið og einum án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Jafnmarga varamenn skal skipa á sama hátt.
     Nánar skal kveðið á um starfshætti matsnefndar í reglugerð.

3. gr. Réttindi sem aflað er í ríki innan EES eða í aðildarríki EFTA.     

Menntamálaráðherra skal staðfesta leyfi til að nota starfsheitið náms- og starfsráðgjafi samkvæmt umsókn ríkisborgara frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða Færeyjum ef viðkomandi leggur fram vottorð um viðurkennd réttindi í ríki innan svæðisins eða Færeyjum í samræmi við skilyrði tilskipunar 89/48/EBE, sbr. lög nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, með áorðnum breytingum.
     Samkvæmt umsókn frá ríkisborgara aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu skal ráðherra staðfesta leyfi til að nota starfsheitið náms- og starfsráðgjafi með sömu skilyrðum og tilgreind eru í 1. mgr., enda leggi viðkomandi fram vottorð um viðurkennd réttindi í aðildarríki samtakanna.

4. gr. Leyfisveiting.     

Menntamálaráðherra er heimilt að veita þeim sem eru í starfi þegar lög þessi öðlast gildi leyfi það sem um ræðir í 1. mgr. 1. gr. enda þótt þeir uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. 1. gr. Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar matsnefndar.

5. gr. Þagnarskylda.     

Náms- og starfsráðgjafa er skylt að gæta þagmælsku um atriði sem hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli málsins. Þagnarskyldan helst þótt viðkomandi láti af starfi.

6. gr. Skyldur náms- og starfsráðgjafa.     

Náms- og starfsráðgjafa ber að þekkja skyldur sínar samkvæmt lögum, viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar er varða fagið.
     Náms- og starfsráðgjafar bera ábyrgð á þeirri ráðgjöf sem þeir veita.

7. gr. Reglugerðarheimild.     

Ráðherra getur sett nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd laga þessara, m.a. reglur um skilyrði fyrir veitingu leyfis og hvernig staðið er að veitingu og afturköllun leyfis.

8. gr. Gildistaka.     

Lög þessi öðlast þegar gildi.

9. gr. Breytingar á öðrum lögum.     

Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:

  1. Lög um grunnskóla, nr. 91/2008:

a. 2mgr. 11. gr. orðast svo:
Um skilyrði þess að hljóta ráðningu sem skólastjóri, kennari eða náms- og starfsráðgjafi í grunnskóla fer samkvæmt gildandi lögum þar um.

b. 3mgr. 13. gr. orðast svo:
Nemendur eiga rétt á að njóta náms- og starfsráðgjafar í grunnskóla af aðilum sem uppfylla skilyrði laga um náms- og starfsráðgjafa.


2. Lög um framhaldsskóla, nr. 92/2008:

a. 3mgr. 8. gr. orðast svo:
Um skilyrði þess að vera ráðinn skólameistari, kennari eða náms- og starfsráðgjafi við framhaldsskóla fer eftir ákvæðum gildandi laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og laga um náms- og starfsráðgjafa.

b. Orðin „náms- og starfsráðgjafa“ í 1. málsl. 5. mgr. 8. gr. falla brott.

c. 4mgr. 37. gr. orðast svo:
Nemendur eiga rétt á að njóta náms- og starfsráðgjafar í framhaldsskóla af aðilum sem uppfylla skilyrði laga um náms- og starfsráðgjafa.

Samþykkt á Alþingi 30. mars 2009.

Efst á síðu