Námskeið fyrir skiptinema á Hvanneyri
Sex skiptinemar við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri auk eins kennara við skólann sitja á þessari önn námskeið sem ber yfirskriftina Námskeið í íslenskri menningu. Námskeiðið er samstarfsverkefni Símenntunar Vesturlands og Landbúnaðarháskólans.
Þetta er í annað skipti sem slíkt námskeið er í boði fyrir skiptinema við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og segir Christian Schultze, rannsókna- og alþjóðafulltrúi skólans, að námskeiðin byggi á því að gefa skiptinemunum eilitla hugmynd um tungumálið en ekki síður að upplýsa þá um ýmislegt er lýtur að landi og þjóð og menningu og hefðum á Íslandi. Christian segir að lögð sé áhersla á að námskeiðið sé á léttum nótum, það sé hugsað sem skemmtilegt krydd í viðbót við það nám sem nemendur stundi í Landbúnaðarháskólanum. Námskeiðið er í átta skipti, einu sinni í viku, það hófst í september og lýkur 11. nóvember. Auk samverustunda á Hvanneyri er farið í náttúruskoðun og vettvangsheimsóknir í Borgarfirði og leitast þannig við að kynna héraðið fyrir þátttakendum.
Skiptinemarnir sex, sem eru á aldrinum 20-25 ára, koma frá samstarfsskólum Landbúnaðarháskólans í nokkrum Evrópulöndum. Á Hvanneyri eru þeir í tæpt hálft ár, frá ágúst til desember, og læra landslagsarkitektúr og umhverfis- og náttúrufræði, bæði til BS- og MA-gráðu. Að sama skapi eru nokkrir nemendur frá Landbúnaðarháskólanum í skiptinámi á þessari önn í samstarfsskólum í Evrópu.
Sjöundi þátttakandinn á Námskeiði í íslenskri menningu er Samaneh Sadat Nickayin, lektor í landslagsarkitektúr við LBHÍ, sem nýlega flutti til landsins frá Ítalíu og er eftir því sem næst verður komist fyrsti doktorinn í þessum fræðum á Íslandi.
En af hverju var farið af stað með þetta námskeið á síðasta ári og aftur í ár? „Við leggjum áherslu á að Erasmus nemendum líði vel hjá okkur og við teljum mikilvægt, þrátt fyrir að vera hér bara í nokkra mánuði, að þeir fái kynningu á tungumálinu, fólkinu sem hér býr og íslenskri menningu og taki með sér heim einhverja vitneskju um íslenskt samfélag. Mér finnst námskeiðið skila mjög góðum árangri og nemendur kunna vel að meta það,“ segir Christian.
„Á fyrsta hluta námskeiðisins sagði ég frá landi og þjóð og síðan fórum við aðeins í tungumálið. Í þessari viku fórum við síðan í smá ferðalag um Borgarfjörð; fórum að Deildartunguhver, í Reykholt, að Grábrók, Hraunfossum og í Paradísarlaut. Seinni hluti námskeiðisins mun síðan að töluverðu leyti byggja á óskum þátttakenda, þá fjöllum við m.a. um trú Íslendinga á álfa og huldufólk. Einhver af skiptinemunum hafði heyrt af því að þess væru dæmi hér á landi að álfasteinir væru ekki hreyfðir úr stað og vegir jafnvel lagðir í sveig fram hjá þeim. Þetta finnst nemendunum áhugavert og öðruvísi en þeir eiga að venjast,“ segir Ívar Örn Reynisson, kennari á skiptinemanámskeiðinu.
Sem fyrr segir eru sex skiptinemar á námskeiðinu. Þar af eru fjórir frá Þýskalandi, einn frá Frakklandi og einn frá Spáni.
„Nemendurnir líta á Íslandsdvöl sína að hluta til sem ævintýri, þeir segjast hafa valið að koma hingað í nám til þess að upplifa eitthvað öðruvísi og sjá ósnortna náttúru. Nemendurnir eru mjög áhugasamir og við leggjum áherslu á að þetta séu skemmtilegar samverustundir,“ segir Ívar Örn.