Skipulagsskrá
Símenntunarmiðstöðin er sjálfseignarstofnun með sérstakri stjórn. Stofnunin ein ber ábyrgð á skuldbindingum sínum. Hún er að öllu leyti sjálfstæð. Heimili Símenntunarmiðstöðvarinnar og varnarþing er í Borgarbyggð.
Stofnendur Símenntunarmiðstöðvarinnar eru:
Bændaskólinn á Hvanneyri, Fjölbrautaskóli Vesturlands, Samvinnuháskólinn á Bifröst, Samtök sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi, Akraneskaupstaður, Borgarbyggð, Búnaðarsamtök Vesturlands, Dalabyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur, Eyrarsveit, Haraldur Böðvarsson hf., Hvalfjarðarstrandarhreppur, Hvítársíðurhreppur, Innri-Akraneshreppur, Kaupfélag Borgfirðinga, KG Fiskverkun ehf., Laugaland hf., Leirár og Melahreppur, Mjólkursamlagið Búðardal, Sementsverksmiðjan hf., Skilmannahreppur, Snæfellsbær, Sparisjóður Mýrasýslu, Sparisjóður Ólafsvíkur, Starfsmannafélag Akraness, Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Borgarness, Verkalýðsfélagið Hörður, Vírnet hf, Þorgeir og Ellert hf.
Eftir stofnfund geta stofnanir, félög, einstaklingar og fyrirtæki orðið aðilar að stofnuninni með samþykki stjórnar og öðlast þá sama rétt og stofnaðilar.</p>
Stofnfé Símenntunarmiðstöðvarinnar er kr. 4.401.625,- þar af kr. 1.000.000,- óskerðanlegt stofnfé að raungildi. Eigi má fara með eigur stofnunarinnar eða ráðstafa þeim á annan hátt en þann er samrýmist markmiðum hennar eða stuðlar að framgangi þeirra.
Markmið Símenntunarmiðstöðvarinnar er að efla og styrkja íslenskt atvinnulíf og samfélag með endur- og símenntun sem taki mið af þörfum atvinnulífs og einstaklinga. Sérstaklega skal stofnunin huga að þörfum íbúa á Vesturlandi í þessu sambandi.
Í stjórn stofnunarinnar sitja sex menn, tilnefndir eða kosnir til tveggja ára í senn. Samtök sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi, Viðskiptaháskólinn á Bifröst, Fjölbrautaskóli Vesturlands og Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri tilnefna einn hver. Tilnefningum skal skilað á aðalfundi og taka gildi frá þeim tíma.Verkalýðsfélög og önnur samtök launafólks sem eru aðilar að stofnuninni kjósa á aðlafundi sameiginlega einn stjórnarmann og aðildarfyrirtæki, önnur en skólarnir þrír, einn. Á sama hátt skal tilnefna eða kjósa hverjum stjórnarmanni varamann sem á seturétt á stjórnarfundum með málfrelsi og tillögurétti. Á stjórnarfundum gildir einfaldur meirihluti. Stjórnin kýs formann stjórnar og skiptir með sér verkum til tveggja ára í senn, í fyrsta sinn á stofnfundi í febrúar 1999. Falli atkvæði á stjórnarfundum jafnt, hefur atkvæði formanns tvöfalt vægi.