TELE

Við stuðlum að menntun

Evrópska samstarfsverkefnið TELE (Teaching Entrepreneurship – Learning Entrepreneurship) er til þess hugsað að styðja við bakið á ungu fólki sem ýmist hefur hætt framhaldsnámi, glímir við atvinnuleysi eða á af öðrum ástæðum erfitt með að fóta sig á vinnumarkaði og finnur þar enga raunverulega ánægju. Verkefnið snýst um að þetta unga fólk uppgötvi nýjar leiðir til árangurs, þrói frumkvæði og nýti sköpunarkraftinn sem í þeim býr. Oft getur samt þurft að fara aftur í nám eða leita annarra leiða, t.d. í starfsnámi til að láta drauminn rætast. Smátt og smátt yfirvinna þátttakendur tilfinninguna fyrir því að hafa mistekist og uppgötva nýja, óþekkta hæfileika og áhugasvið.


Samandregið eru meginmarkmið TELE:

  • Að vinna gegn brottfalli úr framhaldsskóla.
  • Að vinna gegn atvinnuleysi ungs fólks
  • Að þróa aðferðir sem nýtast til að styðja við bakið á markhópnum og efla með þeim bjartsýni og sjálfstraust.
  • Að þróa aðferðir og námsefni í frumkvöðlafræðum sem hægt verður að nýta í framhaldsskólum, símenntunarmiðstöðvum, verknámsskólum og öðrum menntastofnunum sem láta sig málefnið varða.

Aðferðir

Þróaðar verða og „prufukeyrðar“ aðferðir við kennslu og nám sem einkum er ætlað að styðja frumkvæði einstaklinga og laða fram hjá þeim framkvæmdagleði og persónulegt frumkvæði.
 

Þannig er lögð áhersla á að styðja ungt fólk á leiðinni til starfa sem best henta hverjum og einum.Á þessari vegferð nýta samstarfsaðilar í verkefninu eigin reynslu og þekkingu sem fyrir hendi er hjá hverjum og einum.
 
Allir samstarfsaðilar fá lykilaðila á sínu svæði til að styðja verkefnið og taka þátt í því, hver á sínum forsendum. Þar er einkum átt við aðila sem tengjast atvinnuþróun og atvinnulífinu, menntun og sveitastjórnarmálum. Samstarfsaðilar verða reglulega upplýstir um framgang verkefnisins og leitað eftir hugmyndum þeirra hvað framhaldið varðar.


Í TELE, sem er tveggja ára verkefni, munu þátttakendur leggja áherslu á eftirfarandi:

  • Taka saman upplýsingar um verkefni og aðferðir sem hafa reynst vel í landi viðkomandi samstarfsaðila.
  • Gera innihaldslega grein fyrir þremur mismunandi námskeiðum og smiðjum.
  • Á Íslandi verður í október 2015 haldin einnar viku vinnusmiðja með leiðbeinendum frá þátttökulöndunum, þar sem mismunandi aðferðir verða samræmdar og prófaðar.
  • Í framhaldinu verða haldnar í tilraunaskyni frumkvöðlasmiðjur í hverju þátttökulandi fyrir mismunandi markhópa og árangur þeirra síðan metinn.
  • Áframhaldandi vinna nokkurra þátttakenda í námskeiði / smiðju í Lettlandi.
  • Skrifuð verður handbók um TELE aðferðina og framleitt kennslumyndband.

Þátttakendur í verkefninu eru menntastofnanir frá fimm löndum.


Mikil áhersla

Ein af ástæðum þess að ákveðið var að taka þátt í verkefninu er sú, að Evrópusambandið leggur mikla áherslu á eflingu frumkvöðlastarfs. Þessu til staðfestingar má vísa til eftirfarandi sem kemur beint frá heimasíðu Evrópuráðsins: „Europe needs more entrepreneurs and the Commission is looking at ways in which potential entrepreneurs may be encouraged to set up firms“. Gæti útleggst þannig: „Evrópa þarfnast fleiri frumkvöðla og Evrópuráðið er að leita leiða til að styrkja frumkvöðla til að stofna til atvinnustarfsemi“.


Ný aðferðarfræði

TELE verkefnið byggir í raun á aðferðafræði sem Símenntun Vesturlands hefur unnið með árum saman. Í upphafi nýrrar aldar tók atvinnuráðgjöf Vesturlands þátt í norðurslóða verkefni á vegum ESB sem bar heitið „Young Entrepreneursh Factory“. Verkefnið snerist um að styrkja unglinga á aldrinum 14-18 ára og leggja lóð á vogarskálarnar til að vinna gegn brottfalli úr framhaldsskólum. Það var svo árið 2009 sem Símenntunarmiðstöðin ákvað að kynna þá hugmynd fyrir Vinnumálastofnun á Vesturlandi að nota aðferðafræði frumkvöðlafræðslu til að vinna með atvinnuleitendum. Í ljós kom að aðferðin virkaði vel og var ánægja meðal þátttakenda. Haldnar voru u.þ.b. 15 frumkvöðlasmiðjur á Vesturlandi. Símenntun Vesturlands tók í framhaldinu þátt í tveimur Evrópuverkefnum sem bæði byggja á áðurnefndri aðferðafræði. Annars vegar verkefninu „Increase Motivation and improve employability“ (MOEM) sem er nú lokið og þótti takast vel og hins vegar verkefninu „Young women orientation for labor intetration“ (YWOLY) sem lýkur árið 2015.


Það er því í senn rökrétt framhald og nauðsynlegt að taka þátt í verkefninu TELE.

Slóð á vef TELE: www.tele-project.eu