Fullorðinsfræðsla fatlaðra – kynnisferðir

Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi fór í samstarf við Austurbrú og Fræðslumiðstöð Vestfjarða árið 2015 og fékk úthlutað styrk úr ERASMUS+ til að fara í tvær kynnisferðir erlendis.

Sú fyrri verður til Svíþjóðar 9-14 nóvember 2015 Þar sem skoðaðar verða fræðslumiðstöðvar og fengin kynning á fræðslumálum fatlaðra í Svíþjóð.

Sú síðari verður farin til Írlands á vorönn 2016 í sama tilgangi.

Svíþjóð 9-14 nóvember 2015

Verkefnastjórar frá þremur símenntunarmiðstöðvum: Helga Björk Bjarnadóttir frá Símenntunarmiðstöðinni á Vesturlandi, Anna Alexandersdóttir frá Austurbrú og Sólveig Bessa Magnúsdóttir frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða fóru til Svíþjóðar vikuna 9-14 nóvember til að kynna sér fullorðinsfræðslu fatlaðra í Svíþjóð.

Heimsóttu þær Solverket í Stokkhólmi þar sem á móti þeim tóku fulltrúar frá Skolverket, frá menntaskóla og SPSM (The National Agency for Special Needs Education and Schools, SPSM) sem m.a. vinnur við að aðlaga námsefi fyrir fullorðna og hefur með ráðgjöf til kennara allra skólastiga að gera.

Fóru þau yfir fyrirkomulag fræðslumála í Svíþjóð.

Ferðinni var síðan heitið út á landsbyggðina, fyrst til Sollefteå þar sem heimsótt var fullorðinsfræðslumiðstöð Reveljen. Þar hittu verkefnastjórar stjórnendur og kennara fullorðinsfræðslu fatlaðra innan þeirrar miðstöðvar og kynntu þau fyrirkomulag þar og námsefni. Fengu verkefnisstjórar góða sýn inn í starfið þar og einnig sjónarmið tveggja  nemenda við skólann. Í Reveljen er unnið eftir námsskrá Skolverket og gerð einstaklingsáætlun fyrir hvern og einn nemanda í samvinnu við námsráðgjafa.

Leiðin lá til Hårnesand þar sem á móti okkur tóku tveir ráðgjafar SPSM og kynntu okkur fyrirkomulag þar.

Heimsóttur var veitingastaður í Hårnesand (Gula Myllan) sem er dagvistun fyrir fólk með fötlun og vinnan felst í að útbúa og framreiða hádegisverð daglega. Aðsóknin á veitignastaðinn er afar góð.

Heimsótt var fullorðinsfræðslumiðstöð Lårvux í Hårnesand og kennarar þar gáfu verkefnisstjórum góða innsýn inn í starfið en um 1000 nemendur eru í þeim skóla og fólk með fötlun um 60 sem sækja námskeið þar árlega.

Öll fullorðinsfræðsla er endurgjaldslaus og mega nemendur stunda námið aftur og aftur að vild.

Einn nemandi við Fullorðinsfræðslu fatlaðra hjá Lårvux gaf okkur innsýn inn í námið og vann verkefni meðan á heimsókn stóð.

Skoðaðar voru kennslustofur sem voru ríkulega búnar, kennslubækur og fengu verkefnisstjórar sýnikennslu á Smartboard kennslubúnað.

Ferðin heppnaðist einstaklega vel í alla staði og skipulag gestgjafa til fyrirmyndar.

 

Mynd tekin í heimsókn til Sollefteå

Frá vinstri: Sólveig Bessa frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Anna Alexandersdóttir frá Austurbrú, Helga Björk frá Símenntunarmiðstöðinni á Vesturlandi, Peter sérkennari við Reveljen í Sollefteå, Malou verkefnastjóri við Reveljen, Christer rektor Reveljen og Elisabeth náms og starfsráðgjafi við Reveljen