Símenntunarmiðstöðin tekur þátt í þremur erlendum verkefnum. Annars vegar í tveimur verkefnum sem eiga það sameiginlegt að tengjast málefnum innflytjenda: Erasmus+ verkefninu Advancing Migrant Women (AMW) og Nordplus verkefninu Active citizenship.

Hins vegar leiðir Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi  verkefnið FEENICS -Furthering Youth Empowerment Through Enhancing Intrapreneurial Commitment and Skills, þ.e. skapandi hæfni og virkni sem valdefling fyrir ungt fólk.

Advancing Migrant Women (AMW)

Verkefnið er unnið í samstarfi við Háskólann á Bifröst og fræðsluaðila í Englandi, Grikklandi og á Ítalíu. Verkefnið, sem er til þriggja ára, hófst í september 2017 og lýkur í febrúar 2020. Markmiðið er að þróa hágæða efni til aðþjálfa og styðja við konur af erlendum uppruna til þess að þær valdeflist, styrki starfsgetu sína og frumkvöðlahæfni með heildstæðri áætlun sem byggir á þjálfun og kennslu sem eykur sjálfstraust og getu. Í lokin á að vera til afurð sem eflir konur af erlendum uppruna tilþess að geta fullkomlega nýtt hæfileika sína og styrkleika. Vefsíða verkefnisins

Active citizenship

Þetta er tveggja ára verkefni og hófst undirbúningur þess í lok árs 2017.

Samstarfsaðilar eru frá Finnlandi, Noregi og Litháen. Í verkefninu er leitast við að finna og

þróa nýjar aðferðir við kennslu fullorðinna í virkri borgaravitund, auk þess að bæta við námsefni sem nú þegar er til. Hjá Símenntunarmiðstöðinni er lögð áhersla á innflytjendur í þessu verkefni og hefur  grunnvinna farið fram með rannsóknum á  borgaravitund innflytjenda. Miðað er við að verkefninu ljúki á árinu 2019. Vefsíða verkefnisins

FEENICS

Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi leiðir verkefnið FEENICS (Furthering Youth Empowerment through Enhancing Intrapreneurial commitment and skills) sem við köllum á íslensku skapandi hæfni og virkni sem valdefling fyrir ungt fólk. Verkefnið tekur tvö ár og samstarfsaðilar eru frá Búlgaríu, Eistlandi, Grikklandi, Króatíu og Portúgal.

Mikilvægt er að styðja við ungt fólk á leið inn á vinnumarkaðinn, sérstaklega á þetta við um einstaklinga sem ekki njóta sömu tækifæra og aðrir af ýmsum ástæðum.

Nýsköpun innan fyrirtækja og skipulagsheilda á rætur í þeim einstaklingum sem búa yfir skapandi hæfni, þora að taka frumkvæði og eru virkir í sínum störfum. Hæfni einstaklinga til að skapa og vera virkir þátttakendur á vinnustað er því mikils virði fyrir atvinnulífið en ekki síst fyrir einstaklingana sjálfa því slík hæfni felur í sér ákveðna sjálfseflingu sem hægt er að nýta hvort sem er í daglegu lífi eða starfi.

FEENICS verkefnið hefur það að markmiði að efla ungt fólk á aldrinum 20 – 29 ára með því að bjóða upp á þjálfun sem eflir skapandi hæfni og virkni einstaklinga og getur undirbúið þá fyrir atvinnulífið, hvort sem þeir hafa starfsreynslu eða ekki.

Í verkefninu er lögð áhersla á að greina hvers konar hæfniþætti væri gott að vinna með í þjálfuninni, bæði út frá einstaklingunum sjálfum og atvinnulífinu. Einnig að þróa námsefni sem hægt er að nota í þjálfuninni og setja saman hóp af ungu fólki sem fær tækifæri til að prufa námsefnið og annað stuðningsefni. Einnig verður veflægt samstarfs- og stuðningsnet sett á laggirnar þar sem leiðbeinendur ungmenna geta sótt sér og deilt efni og þekkingu.Vefsíða verkefnisins